Varðskipið Óðinn verður opið og til sýnis í Akraneshöfn á föstudag


Föstudaginn 19. júní mun varðskipið Óðinn sigla frá Reykjavík til Akraness. Um borð í Óðni verða félagar í Hollvinasamtökum Óðins, sem af áræðni hafa lagt kraft í varðveislu skipsins, viðhald þess og umhirðu.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Gísla Gíslasyni hafnarstjóra fyrir hönd Faxaflóahafna.

Skipið er hluti af Sjóminjasafninu í Reykjavík, en varðveitt í því ástandi sem það kom.

Óðinn heldur úr Gömlu höfninni í Reykjavík um kl. 11:00 og er áætlað að það komi á Akranes um kl. 12:00. Frá klukkan 12:30 til 14:30 verður skipið opið og almenningi til sýnis. 

Óðinn var smíðaður í Álaborg í Danmörku árið 1959, 910 tonn að stærð, 63 m á lengd og 10 m á breidd. Skipið er með sérstaklega styrkt stefni og byrðing fyrir siglingar í ís. Um borð eru tvær aðalvélar sem skila 18 sjómílna ganghraða, ásamt ljósavélum. Siglinga- og fjarskiptatæki voru ætíð af bestu gerð. Dráttarspil var 20 tonna, fyrir 3 km langan dráttarvír. Óðinn tók þátt í öllum þremur þorskastríðunum á 20. öld. Öflugasta vopn skipsins var 57 mm fallbyssa, staðsett á palli fyrir framan brúna. Þekktasta og árangursríkasta vopnið í þorskastríðunum voru þó togvíraklippurnar, sem sjá má á afturdekki skipsins. Óðinn reyndist sérlega vel sem björgunarskip. Hann dró alls tæplega 200 skip til lands eða í landvar vegna bilana, veiðarfæra í skrúfu eða eldsvoða um borð. Einnig dró hann flutninga- og fiskiskip 14 sinnum úr strandi. Þá bjargaði skipið áhöfnum strandaðra skipa þrisvar sinnum og tvisvar bjargaði það áhöfnum sökkvandi skipa. Óðinn sinnti alla tíð almennu veiðieftirliti alla tíð og beindist það bæði að íslenskum og erlendum skipum. Fylgjast þurfti með hvar var veitt og hvernig veiðarfærin voru. Einnig var Óðinn oft kallaður til þegar ófærð var í landi og erfiðleikar við fólks- og vöruflutninga, ekki síst í afskekktustu byggðum landsins. 

Hollvinasamtök Óðins voru stofnuð 26. október 2006 í Sjóminjasafninu í Reykjavík. Björgum Óðni, sögunnar vegna voru einkunnarorð þessara nýju samtaka, sem stofnuð voru að frumkvæði Sjómannadagsráðs eftir tillögu Guðmundar Hallvarðssonar, þáverandi þingmanns og formanns ráðsins. Árið 2002 blasti við að varðskipið Óðinn yrði selt úr landi þegar þjónustu þess hjá Landhelgisgæslunni lyki. Mörgum áhugamönnum um varðveislu sögufrægra og merkra skipa fannst ekki koma til greina að skip með slíka sögu yrði látið fara úr landi og glatast. Hollvinsamtökin voru stofnuð með það markmið að leiðarljósi að fá skipið til afhendingar og eignar og gera að minjasafni um þorskastríðin og björgunarsögu Landhelgisgæslunnar. Það var svo þann 30. maí 2008 að undirritað var samkomulag um borð í Óðni, sem þá þegar hafið verið færður að bryggju við Sjóminjasafnið, milli Hollvinasamtakanna og dómsmálaráðherra og fjármálaráðherra um afhendingu skipsins til samtakanna. 

Ekki er vissa fyrir því að Óðinn hafi áður komið í Akraneshöfn, en að minnsta kosti er mjög langt síðan, hafi skipið lagst þar að bryggju. Heimsókn Óðins er því fagnaðarefni og heiður að fá þetta sögufræga skip á Akranes, en ekki síður ánægjulegt að taka á móti Hollvinum Óðins, sem hafa af elju og þrautseigju unnið mikið þjóðþrifaverk með sjálfboðavinnu og ómetanlegu framlagi,“ segir Gísli að lokum í tilkynningunni.