Stúlka með löngu á sínum stað á ný í skrúðgarðinum við Suðurgötu


„Stúlka með löngu” eftir Guðmund Einarsson frá Miðdal var formlega vígð í skrúðgarðinum við Suðurgötu eftir endurbætur þann 17. júní s.l.

Listaverkið er stytta sem sett var upp í gosbrunn skrúðgarðsins árið 1958 en á þeim tíma var húsið við listaverkið nýtt sem skrifstofuhúsnæði fyrir bæjarstarfsmenn. Lögreglustöð Akraness var einnig í þessu húsi.

Þetta kemur fram á vef Akraneskaupstaðar.

Ræktun hófst í skrúðgarðinum eftir að beiðni barst til bæjarstjórnar árið 1950 frá Skógræktarfélagi og Menningarráði Akraness um að girða af svæði og ræsa fram land í hjarta bæjarins.

Var talin mikil nauðsyn að á Akranesi væri staður þar sem fólk gæti hist í notalegu og fallegu umhverfi. Guðmundur Jónsson garðyrkjumeistari teiknaði frumuppdráttinn, en garðurinn hefur tekið talsverðum breytingum síðan þá.

Styttan „Stúlka með löngu” eftir Guðmund Einarsson frá Miðdal (1895-1963) var sett upp í gosbrunn skrúðgarðsins við bæjarhúsið á Akranesi árið 1958. Áður hafði hún verið til sýnis á sýningu í Gagnfræðaskólanum á Akranesi.

Í kringum síðustu aldamót frostsprakk „Stúlka með löngu” og hún færð í geymslu. Myndhöggvarinn Gerhard König tók við að gera við styttuna árið 2018. Gerhard hefur meðal annars gert við hafmeyjuna í Skallagrímsgarði, Borgarnesi og staðið að endurreisn á Listasafni Samúels Jónssonar í Selárdal.

Nánar á vef Akraneskaupstaðar.