Magnús tekur við af Gísla sem hafnarstjóri Faxaflóahafna

Stjórn Faxaflóahafna sf. samþykkti samhljóða á fundi sínum að ráða hann til starfa frá og með 5. ágúst n.k.

Skagamaðurinn Gísli Gíslason, núverandi hafnarstjóri Faxaflóahafna óskaði eftir því í febrúar s.l. að hætta störfum en hann hefur verið hafnarstjóri frá því í september árið 2005.

Magnús Þór er rafmagnsverkfræðingur frá Háskóla Íslands og lauk meistaragráðu í faginu frá DTU í Danmörku árið 1990.

Magnús starfaði frá árinu 1990 til 2009 hjá Marel, en þar var hann framkvæmdastjóri framleiðslu, fyrst á Íslandi og síðar með ábyrgð á framleiðslueiningum Marel í Evrópu. Árið 2009 hóf Magnús Þór störf hjá Fjarðaráli fyrst sem framkvæmdastjóri framleiðsluþróunar, en síðar sem forstjóri. Hjá Fjarðaáli var Magnús ábyrgur fyrir allri starfsemi félagsins á Íslandi, þ.m.t. innleiðingu á öryggisstefnu, og samvinnu við opinbera aðila. Þar átti hann m.a. samstarf við sveitarstjórn Fjarðabyggðar varðandi hafnamál og umhverfismál.

Á árum sínum bæði hjá Marel og Fjarðaráli hefur Magnús Þór öðlast mikla reynslu af stjórnun og rekstri þ.m.t. breytingastjórnun stjórnun viðamikilla verkefna og áætlanagerð.

Magnús Þór er með töluverða tengingu á Akranes en eiginkona hans er Skagakonan Soffía Brandsdóttir.

Alls bárust 26 umsóknir um starf hafnarstjóra Faxaflóahafna sf.

http://localhost:8888/skagafrettir/2020/05/04/33890/
http://localhost:8888/skagafrettir/2020/02/29/gisli-sagdi-upp-starfi-sinu-sem-hafnarstjori-faxafloahafna/