Vegurinn um Kjalarnes er einn fjölfarnasti þjóðvegur landsins. Á hverjum degi aka þar um 8-10 þúsund bílar – en vegurinn er einn sá allra hættulegasti á landinu.
Íbúar á Akranesi hafa í mörg ár kallað eftir endurbótum á þessum hættulega vegakafla sem er aðeins með eina akrein í hvora átt.
Nú stefnir í að framkvæmdir við breikkun vegarins á Kjalarnesi hefjist. Í byrjun næstu viku verður fyrri áfanginn í breikkun Þjóðvegar 1 boðinn út. Á haustdögum verður síðari hluti vegarkaflans boðinn út en á þeim kafla varð hörmulegt banaslys um s.l. helgi.
Fyrri hlutinn sem verður boðinn út í byrjun næstu viku nær frá Varmhólum, um tveim kílómetrum vestan aðalbílastæðisins við Esjurætur, vestur að þéttbýlinu í Grundarhverfi.
Á vef RÚV kemur fram að framkvæmdir við fyrri áfangann geti hafist um mánaðamótin ágúst-september.
Vegurinn verður ýmist með tveim akreinum í hvora átt, eða tveim í aðra áttina og einni í hina, en á þeim köflum verður undirlag breiðara svo hægt verði að bæta við akrein í framtíðinni.
Vegurinn á að vera tilbúinn árið 2023.