Þverun Grunnafjarðar er fýsilegur kostur að mati Samgönguráðherra


Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson hefur svarað fyrirspurn frá Guðjóni S. Brjánssyni um þverun Grunnafjarðar.

Kostnaður við þverun Grunnafjarðar og færslu hringvegarins vestur fyrir Akrafjall er metinn á 9 milljarða kr. Kostnaður við breikkun vegarins í núverandi vegstæði hefur hins vegar verið metinn á 8 milljarða. kr.

Í svari ráðherra kemur m.a. fram að þverun Grunnafjarðar getur verið fýsilegur kostur en allt bendi til þess að ráðast þurfi í formlegt umhverfismat á svæðinu til þess að fá úr því skorið hvort þessi leið sé forsvaranleg út frá umhverfislegu sjónarmiði.

Að mati ráðherra getur Grunnafjarðarleiðin aukið öryggi með tilliti til legu vegarins, færri tenginga og veðurfars.

Hér fyrir neðan er fyrirspurn Guðjóns og svör ráðherra.

     1.      Hefur verið unnið að þverun Grunnafjarðar og færslu þjóðvegar 1 vestur fyrir Akrafjall síðan greinargerð VSÓ-ráðgjafar um þann möguleika kom út árið 2009 og ef svo er, hvar er málið statt?

Ekkert hefur frekar verið unnið að undirbúningi eða rannsóknum á þessari veglínu eftir útkomu skýrslunnar. Á grundvelli skýrslunnar óskaði Vegagerðin eftir því við gerð nýs aðalskipulags fyrir Hvalfjarðarsveit að veglína um Grunnafjörð yrði sett þar inn. Fjallað var um leiðina í greinargerð með skipulaginu. Sveitarfélagið treysti sér hins vegar ekki til að festa veglínuna í skipulagsuppdrættinum þar sem talið var að slíkt myndi tefja afgreiðslu og staðfestingu þess.

     2.      Var gerð úttekt á hagkvæmni og öryggi fyrir umferð akandi, hjólandi, gangandi og ríðandi fólks á þessu svæði og umferðar innan sveitarinnar við færslu vegarins?

Ekki hefur verið gerð sérstök úttekt á þessu atriði. Mat Vegagerðarinnar er hins vegar að miklar líkur séu á að veglína um mynni Grunnafjarðar sé þjóðhagslega hagkvæm sérstaklega vegna styttingar milli Akraness og Borgarness. Enn fremur eru miklar líkur á að umferðaröryggi verði meira á nýrri leið heldur en á breikkuðum núverandi vegi. Það er bæði vegna hagstæðari legu og vegna mun færri gatnamóta.

     3.      Hver er afstaða ráðherra til þess að leggja umræddan veg um Grunnafjörð?

Eins og fram kemur að framan er ljóst að vegur fyrir Grunnafjörð getur verið fýsilegur kostur ef horft er til bættra samgangna milli Hvalfjarðar og Borgarness. Ekki er fyllilega ljóst hvort sú leið er forsvaranleg út frá umhverfislegu sjónarmiði. Þó að greinargerð VSÓ-ráðgjafar um helstu umhverfisáhrif bendi til að svo geti verið þarf að ráðast í formlegt umhverfismatsferli til að fá úr því skorið.

     4.      Hindra náttúruverndarsjónarmið framkvæmdina að mati ráðherra?
    Vísað er til svars við 3. tölul.

     5.      Er fyrirhugað að taka þennan valkost til skoðunar við framkvæmdir sem nauðsynlegar eru á þessari leið á næstu árum?

Í þingsályktunartillögu um samgönguáætlun fyrir árin 2020–2034, sem lögð hefur verið fram, er gert ráð fyrir að framkvæmdir við breikkun hringvegarins frá Hvalfjarðargöngum að Borgarnesi hefjist á öðru tímabili áætlunarinnar (2025–2029) og ljúki á þriðja tímabili (2030–2034). Ekki er tímabært að ráðast í umhverfismat vegna þverunar Grunnafjarðar. Vegagerðin er að setja af stað vinnu vegna frumdraga (frumhönnunar) á breikkun hringvegarins milli Hvalfjarðarganga og Borgarness. Í þeirri vinnu verða mismunandi valkostir austan og vestan Akrafjalls skoðaðir og ákvörðun um legu nýrra Hvalfjarðarganga gætu haft áhrif á hvaða lausn verður valin. Í framhaldi af því þarf að setja af stað vinnu vegna mats á umhverfisáhrifum framkvæmdanna. Vegagerðin lét vinna greinargerð um möguleg umhverfisáhrif Grunnafjarðarleiðarinnar árið 2009 þar sem skoðaðir voru allir þeir þættir sem kæmu til umfjöllunar í formlegu MÁU. Þær upplýsingar liggja því fyrir.

Í nýlegri greinargerð um samanburð mismunandi gangaleiða, sem Vegagerðin vann í samvinnu við Mannvit, eru settir fram nokkrir valkostir. Tveir þeirra eru helst taldir koma til greina. Annar kosturinn er að ný göng liggi samhliða núverandi göngum að mestu en með minni bratta í samræmi við núgildandi kröfur. Akstursstefnur yrðu þar með aðskildar. Hinn kosturinn er að munninn að norðan komi upp milli Kúludalsár og Grafar. Við þessa lausn færi umferðin að og frá Akranesi um núverandi göng en umferðin um hringveginn færi um nýju göngin. Seinni valkosturinn styttir hringveginn um 2,8 km en 65% umferðarinnar um göngin nú fara þá leið. Þetta er að öllum líkindum arðsamasta leiðin. Ókosturinn er helst sá að umferðarstefnur yrðu ekki aðskildar. Verði fyrri kosturinn fyrir valinu kemur Grunnafjarðarleiðin til greina sem valkostur, en ekki verði seinni kosturinn valinn. Þetta þarf allt að skoðast í samhengi.

     6.      Hver er áætlaður kostnaður við annars vegar þverun Grunnafjarðar og færslu hringvegarins vestur fyrir Akrafjall og hins vegar tvöföldun vegarins á núverandi vegstæði frá Hvalfjarðargöngum til Borgarfjarðarbrúar?

Kostnaður við þverun Grunnafjarðar og færslu hringvegarins vestur fyrir Akrafjall er metinn á 9.000 millj. kr. Kostnaður við breikkun vegarins í núverandi vegstæði hefur hins vegar verið metinn á 8.000 millj. kr.

     7.      Hver gæti mögulegur ávinningur verið af að færa þjóðveg 1 vestur fyrir Akrafjall með tilliti til ferðatíma, umferðar, umferðaröryggis og veðuraðstæðna?

Grunnafjarðarleiðin getur stytt hringveginn mest um einn kílómetra. Stytting milli stóru þéttbýlisstaðanna Akraness og Borgarness er hins vegar um sjö kílómetrar. Umferðaröryggi yrði að öllum líkindum heldur meira á þessari leið en ef núverandi vegur yrði breikkaður. Það er vegna hagstæðari legu og færri tenginga. Í greinargerð VSÓ-ráðgjafar er sett fram sú niðurstaða veðurfræðings að veðurfar á nýju vegstæði muni að öllum líkindum stuðla að auknu öryggi. Það er helst vegna þess að þau tilfelli þar sem saman fara ofsaveður og hálka verða færri.

http://localhost:8888/skagafrettir/2020/03/31/gudjon-vill-thvera-grunnafjord-og-faera-thjodveg-1-vestur-fyrir-akrafjall/
http://localhost:8888/skagafrettir/2020/04/01/mjog-skiptar-skodanir-um-hugmyndir-sem-tengjast-thverun-grunnafjardar/