Draumahöggið kom eftir 54 ára bið hjá Jóni Smára


„Ég sló með 4-járni og við héldum að boltinn hefði farið framhjá holunni. Þegar við gengum inn á flötina sáum við ekki boltann og það var ánægjulegt að sjá boltann ofaní holunni. Þar með lauk 54 ára bið eftir þessu draumahöggi,“ segir Jón Smári Svavarsson sem gerði sér lítið fyrir og fór holu í höggi á 14. braut Garðavallar á lokadegi Meistaramóts Leynis 2020.

Jón Smári hefur leikið golf í rúmlega hálfa öld og biðin langa er nú á enda.

Þess má geta að samkvæmt bestu heimildum Skagafrétta er Jón Svavar aðeins þriðji kylfingurinn sem nær draumahögginu á lengstu par 3 holu Garðavallar, þeirri 14.

Brautin er um 150 metrar að lengd frá rauðum teigum en Jón Smári keppti í flokki 65 ára og eldri á Meistaramóti Leynis.

Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari karlaliðs ÍA í knattspyrnu, fór fyrstur holu í höggi á 14. braut þann 9. júní árið 2004 eða fjórum árum eftir að Garðavöllur varð 18 holur.

Helga Ingibjörg Reynisdóttir fór holu í höggi á 14. árið 2011 og Jón Smári Svavarsson er sá þriðji sem slær draumahöggið á þessari erfiðu og löngu par 3 holu.

Þess má geta að Jón Smári er faðir Valdísar Þóru Jónsdóttur, afrekskylfings úr Leyni.