„Spennandi tækifæri að taka þátt í uppbyggingunni á Akranesi“


Gunnar Einarsson þjálfari Kára í viðtali við skagafrettir.is

„Ég er virkilega ánægður með hugmyndafræðina á bak við Káraliðið og samstarfið við Knattspyrnufélag ÍA. Til lengri tíma litið þá er þetta eina rétta leiðin í því að byggja upp félagið í heild sinni. ÍA þarf að hlúa vel að uppbyggingarstarfinu og Kári er besta leiðin fyrir unga leikmenn til þess að þroskast og bæta leik sinn með aðstoð eldri og reyndari leikmanna,“ segir Gunnar Einarsson þjálfari Kára. 

Gunnar tók við liðinu í byrjun júní eftir að Jón Aðalsteinn hætti sem þjálfari liðsins í maí en Jón Aðalsteinn tók við liðinu á haustmánuðum 2019. Gunnar hefur því ekki haft langan tíma til þess að koma hugmyndafræði sinni til leikmanna Kára – og það mun taka tíma að sögn Gunnars. 

Gunnar er þaulreyndur leikmaður sem varð m.a. fjórum sinnum Íslandsmeistari með Val og KR, og tvívegis bikarmeistari. Hann lék með yngri landsliðum Íslands og lék sem atvinnumaður í Hollandi og á Englandi. Hann starfar í dag sem rekstrarstjóri Mjölnis. Gunnar var aðstoðarþjálfari Sigursteins Gíslasonar hjá Leikni í Reykjavík á árunum 2009-2012 og tók hann við liðinum um tíma sem aðalþjálfari. 

Mikil gæði í 2. deildinni 

„Ég þekkti aðeins til hugmyndafræðinnar á bak við Kára í gegnum Gunnlaug Jónsson fyrrum þjálfara ÍA. Mér fannst það gríðarlega spennandi að fá tækifæri að fá að þjálfa unga leikmenn sem ætla sér lengra og þá helst með liði ÍA. Leikmenn sem koma til Kára frá ÍA eru þar með verkefni að verða betri, þroskast, öðlast reynslu og upplifa alvöru meistaraflokksleiki. Það sem hefur komið mér mest á óvart er hversu mikil gæði eru í 2. deildinni. Ég hef aðeins verið fyrir utan þann ramma og ekki fylgst mikið með þessari deild. Í þessari deild er skemmtileg blanda af eldri og reyndari leikmönnum sem hafa mikla reynslu úr tveimur efstu deildunum hér á Íslandi og víðar. Káraliðið er vel skipað þegar kemur að þessari blöndu eldri og yngri leikmanna. Eggert Kári Karlsson, Jón Vilhelm Ákason, Einar Logi Einarsson, Garðar Gunnlaugsson og Andri Júlíusson eru „dýnamíkin“ í þessum leikmannahóp. Þeir hata allir að tapa og ungu leikmennirnir finna fyrir þessum anda sem þeir búa yfir.“ 

Gunnar segir að það hafi einnig komið honum skemmtilega á óvart hversu mikill áhugi er á liði Kára á Akranesi. 

Fólk kemur á Káraleik til að upplifa eitthvað óvænt 

„Ég verð að viðurkenna að það kom mér á óvart að sjá um 400 manns á fyrsta heimaleiknum gegn liði Selfoss. Það er greinilegt að stuðningsmenn Kára eru að mæta til þess að upplifa eitthvað sem þeir sjá kannski ekki í öðrum leikjum. Það er mikið fjör í leikjum Kára sem oft er skorað mikið af mörkum, gul og rauð spjöld og allskonar tilþrif sem áhorfendur kunna greinilega að meta.“ 

Eins og áður segir mun það taka tíma fyrir Gunnar að koma með sínar áherslur í leik liðsins. 

„Við verðum að forgangsraða og byggja þetta hægt og rólega upp. Það sem ég legg áherslu á er að við náuma að stjórna betur atburðarásinni í leikjunum. Halda boltanum betur innan liðsins, keyra hraðann upp þegar við á, og róa leikinn niður þegar þess þarf. Á þeim leikjum sem ég hef séð á ÍATV frá því í fyrra þá var liðið oft að „elta“ mótherjann í stað þess að stórna leiknum.“

Æfingahópur Kára er fjölmennur en tæplega 30 leikmenn eru í röðum Kára.

„Það er mikilvægt að ungir leikmenn viti að þeir þurfa ekki að vera „tilbúnir“ 17-19 ára. Hjá mörgum gerist það síðar á lífsleiðinni og það er bara allt í lagi að vera klár í slaginn í PepsiMax-deildinni 23 ára. Það er einnig mikilvægt að það sé eftirsóknarvert að koma og vera í Kára. Við viljum að gæðin á æfingum séu góð og það eru allir að reyna að bæta sig. Landslagið í íslenska boltanum hefur verið með þeim hætti að ungir leikmenn fá ekki mörg tækifæri þar sem að erlendir leikmenn eru fengnir til að styrkja liðin. Að mínu mati er ÍA á réttri leið með því að vinna þétt með Kára með það sem markmið að búa til enn fleiri gæðaleikmenn sem gætu leikið með ÍA í efstu deild þegar fram líða stundir,“ segir Gunnar Einarsson þjálfari Kára.