Mikil ánægja hjá íbúum við Eyrarflöt 4 með nýjar rafhleðslustöðvar


Mikil ánægja er meðal íbúa við Eyrarflöt 4 á Akranesi með nýjar rafhleðslustöðvar sem nýverið voru settar upp fyrir framan fjölbýlishúsið. Verkefnið fékk styrk frá Akraneskaupstað í samvinnu við Orku Náttúrunnar (OR) samkvæmt ákvörðun bæjarráðs fyrr á þessu ári.

Kristján Kristjánsson íbúi í Eyrarflöt 4 segir að húsfélagið hafi ráðist í þessar framkvæmdir fyrir rafbílaeigendur.

„Undirbúningsferlið tók töluverðan tíma. Það þurfti að huga að mörgum hlutum. Verkefnið var boðið út og samið að lokum við Rafbox ehf. sem sáu um alla framkvæmd við verkið – auk þess að veita góða ráðgjöf,“ segir Kristján.

Tveir rafhleðslustaurar eru nú fyrir utan Eyrarflöt með alls fjórum 22 kwh. tengingum. Hleðslustöðvarnar eru frá Aura og virka fyrir allar tegundir rafbíla og tengitvinnbíla sem eru á markaðnum í dag.

„Við nýttum tækifærið og grófum út fyrir alls fjórum staurum. Það eru því tveir brunnar klárir fyrir tvo staura til viðbótar, sem vonandi verða settir upp á næstu árum. Ef það gengur eftir þá verða alls 8 tengi á bílaplaninu, eitt fyrir hverja íbúð.“

Að sögn Kristjáns er innheimtuferlið einfalt þar sem að hver íbúi sé með RFID flögu sem tryggir að hver hleðsla er skráð með réttum hætti.

„Hleðslustöðvarnar eru tengdar við álagsstýringu sem koma í veg fyrir að heimtaug hússins verði fyrir of miklu álagi. Við erum afar ánægð með að framtíðin sé til staðar við Eyrarflöt 4. Við erum líka afar ánægð með þá þjónustu sem við fengum frá Rafbox. Verkið gekk fljótt og örugglega fyrir sig. Jarðrask var lítið sem ekkert og frágangur til fyrirmyndar,“ segir Kristján Kristjánsson við skagafrettir.is.