Aðsend grein frá Einari Brandssyni
Grein mín á dögunum um yfirvofandi skipulagsslysfarir í Skógarhverfi vakti bæði og kallaði á viðbrögð Ragnars B. Sæmundssonar formanns skipulags- og umhverfisráðs. Með því var nokkur sigur unninn því núverandi meirihluti bæjarstjórnar Akraness hefur lítt verið sýnilegur á kynningarfundum um málið og einatt falið embættismönnum bæjarins kynningu málsins.
En að grein formannsins. Hann bendir á þá augljósu staðreynd að með breyttu skipulagi verði ekki alveg skorið á tengingu Garðalundar og Klapparholts. Þar á hann við stíg er nú liggur á milli svæðanna. Einmitt þar kristallast, að ég vil segja, metnaðarmunur okkar. Mín framtíðarsýn er sú að þessi tvö svæði verði ein samfelld útivistarparadís Akraness. Formanninum dugar stígurinn sem jafnframt á að vera akvegur.
Þá nefnir formaðurinn í löngu máli ofanvatnslausnir, sem hann kallar svo og brigslar mér um að þekkja ekki mun á slíkum lausnum og göngu- og hjólastígum frá grænum svæðum. Það er algengur ósiður stjórnmálamanna í dag, sem á tyllidögum vilja kenna sig við græna framtíð, að benda á næfurþunnt og fölt hálmstráið sem eftir stendur þegar skóginum hefur verið fórnað. Hjólastígar og regnvatnssprænur koma ekki í stað heildstæðs útivistarsvæðis sem nýst getur bæjarbúum allan ársins hring.
Uppbygging ferðaþjónustu – Hótel
Formanninum þykir skjóta skökku við að ég skuli vilja halda möguleika á hótelbyggingu á svæðinu opnum þar sem enginn hafi óskað eftir leyfi til slíkrar byggingar. Þar kemur enn og aftur misjöfn framtíðarsýn okkar í ljós. Er til betri staður til slíks rekstrar en í miðpunkti útivistarsvæðis, Akrafjallið innan seilingar, í göngufæri við golfvöll, byggðasafnið, Jaðarsbakkana að ógleymdum Langasandinum. Bíður einhver betur? Þessum gullna möguleika í ferðaþjónustu er algjör óþarfi að fórna. Vilji meirihlutans er hins vegar sá að á þeim reit rísi gróðurhús og geymslur þrátt fyrir að formaðurinn hafi gefi í skin bæði í ræðu og riti að þar verði grænt svæði!! Formanninum er ekki kunnugt um að nokkur hafi sótt um þessa hótellóð og því beri að taka hana út af skipulaginu. Enginn hefur sótt um hótellóð á Sementsreitnum, er það þá næsta verkefni formannsins að taka hana út af skipulagi? Eigum við bara að bíða eftir því að einhver sækji um að byggja hótel og þá fara að skipuleggja einhverja lóð? Stjórnmálamenn eiga að hafa framtíðarsýn og skapa möguleika til uppbyggingar.
Skipulag hvers er verið að kynna?
Alvarlegast er í grein formansins að ásaka mig um að fara niður á „það plan að leggja starfmönnum bæjarins og skipulagshöfundi orð í munn og lýsa yfir takmörkuðum skilningi þeirra á möguleikum svæðisins.“ Í umræðunni á kynningar fundinum kom fram spurning um hvort þetta land sem byggðin færist yfir og er skilgreint sem beitarland í dag, væri fundarmönnum dýrmætt? Í grein minni segi ég „á fundinum kom ekki fram mikill skilningur af hálfu meirihlutans um möguleika svæðsins og talað um svæðið sem fer undir íbúðabyggð sem ómerkileg beitarhólf.“ Ég skynjaði ásamt fleirum sem voru viðstaddir að þetta væri skoðun meirihlutans enda verið að kynna verk hans. Í mínum huga er skipulagið stefnumótun meirihlutans en ekki embættismanna. Á fundinum var hins vegar ekki kostur fyrir gesti fundarins að eiga rökræður við aðra en embættismenn.
Það er nýlunda í bæjarmálum á Akranesi að kjörnir fulltrúar treysti sér ekki til þess að standa fyrir máli sínu gagnvart íbúum. Á síðasta kjörtímabili þegar kynntar voru umfangsmiklar skipulagsbreytingar sem skiptar skoðanir voru um, þá var það formaður Skipulags- og umhverfisráðs sem stýrði kynningarfundum og fékk þá tækifæri til að hlusta á íbúana. Mikilvægustu verkefni stjórnmálamanna eru að marka stefnuna til framtíðar. Skýrasta stefnumörkun til framtíðar eru ekki síst skipulagsmálin. Þar eiga og verða stjórnmálamenn að hafa skoðun og þora að kynna hana og standa fyrir máli sinu. Það hefur núverandi meirihluti bæjarstjórnar ekki gert heldur teflt fram embættismönnum bæjarins.
Það er gleðilegt hversu mikil eftirspurn er til byggingar einbýlis- og raðhúsa á Akranesi. Þegar núverandi meirihluti bæjarstjórnar tók við var í gildi skipulag sem uppfyllti þessa eftirspurn. Nú hefur meirihluti bæjarstjórnar hins vegar ógilt það skipulag með augljósum afleiðingum. Það er formaður skipulags- og umhverfisráðs eðli málsins samkvæmt sem ber mesta ábyrgð á slíkum ákvörðunum hverju sinni. Hann getur ekki skýlt sér á bak embættismanna eða minnihlutans í þeim ákvörðunum. Hans hlutverk er líka að sannfæra íbúa hverju sinni um að hann og meirihluti bæjarstjórnar stefni í rétta átt.
Tjaldað til einnar nætur
Verðmætasta verkfæri við stjórn sveitarfélags er framtíðarsýnin. Skipulagsmál er besta dæmið um slíkt. Þar mega menn ekki tjalda til einnar nætur. Íbúar sem ráðast í húsbyggingu gera það með gildandi skipulag í huga og með þá trú að þar sé horft til lengri tíma. Það er því fráleitt að með skipulagi lóða undir örfá íbúðarhús sé ekki bara gengið á rétt íbúa í Skógarhverfi heldur einnig á rétt allra íbúa sveitarfélagsins hvað varðar framtíðar útivistar- og viðburðarsvæði.
Að lokum þá hvet ég íbúa á Akranesi að kynna sér þessar breytingar vel því þetta er ekki bara einkamál þeirra sem búa í Skógarhverfinu. Framtíðar útivistar- og viðburðarsvæði okkar allra liggur undir. Það er ennþá hægt að forða þessu skipulagsslysi. Til þess að svo megi verða þurfa íbúar Akraness að láta í sér heyra.
Einar Brandsson
Höfundur er bæjarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn.