Áhorfendur leyfðir á leik ÍA og Gróttu sem fram fer í dag á Akranesvelli


ÍA og Grótta úr Reykjavík eigast við í PepsiMax deild karla í dag. Leikurinn hefst kl. 16:30 og fer fram á Akranesvelli. Liðin eru í 10. og 11. sæti deildarinnar eins og sjá má á stöðutöflunni hér fyrir neðan.

Eftir frekara samráð við sóttvarnaryfirvöld hefur KSÍ ákveðið að leyfa áhorfendur á leikjum í öllum flokkum og á öðrum viðburðum á vegum KSÍ í samræmi við gildandi lög og reglugerðir.

Ákvörðunin tekur strax gildi og nær því til þeirra leikja sem fara fram í dag, mánudag. Frekari útfærslur varðandi áhorfendafjölda munu koma fram í leiðbeiningum frá ÍSÍ, sem gefnar verða út síðar í dag.

Búast má við því að í leiðbeiningum ÍSÍ komi fram að börn fædd 2005 og síðar skuli talin með í áhorfendafjölda og að sérsamband (KSÍ) fái til staðfestingar frá félögum sínum áætlaðan fjölda í hverju hólfi / hverju áhorfendasvæði og að í hverju hólfi séu að hámarki 200 manns (börn fædd 2005 og síðar þar með talin).