Bæjarráð vill tryggja að íbúar Akraness fái úthlutað íbúðum hjá Leigufélagi aldraðra


Á síðasta fundi bæjarráðs Akraness var samþykkt að gerður verði samstarfssamningur Akraneskaupstaðar og Leigufélags aldraðra um úthlutanir leiguíbúða sem byggðar verða með stuðningi stofnframlags Akraneskaupstaðar og ríkisins.

Í apríl á þessu ári var samþykkt í bæjarráði samstarfsverkefni við Leigufélag aldraðra hses. vegna uppbyggingu almennra íbúða samkvæmt lögum nr. 52/2016 á byggingarlóðinni við Dalbraut nr. 6. Heildarstofnvirði umsóknar Leigufélags aldraðra til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar er kr. 1.100.639.746 og stofnframlag Akraneskaupstaðar er 12% af þeirri fjárhæð eða kr. 132.076.769. Gatnagerðar- og þjónustugjöld Akraneskaupstaðar vegna úthlutunar lóðanna og uppbyggingarinnar eru sem nemur stofnframlagi Akraneskaupstaðar.

Í samkomulaginu sem tekið var fyrir á síðasta fundi bæjarráðs þann 16. september s.l. á að vera tryggt að úthlutun íbúðanna, sem stofnframlag Akraneskaupstaðar tekur til, fari til eldri borgara á Akranesi og að leigufjárhæðir verði alfarið ákveðnar af stjórn Leigufélags aldraðra.

Tillagan var samþykkt með tveimur atkvæðum gegn einu. Rakel Óskarsdóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins greiddi atkvæði gegn afgreiðslu málsins. Í bókun hennar kemur eftirfarandi fram:

„Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins hefur kallað eftir því að dýpri þarfagreining fari fram hvort eftirspurn sé eftir slíku úrræði á Akranesi nú eða í náinni framtíð. Húsnæðisáætlun Akraneskaupstaðar tekur ekki á slíkri greiningu og því telur bæjarfulltrúi ekki skynsamlegt að hefja þessa vegferð.“

Valgarður Lyngdal Jónsson (Samfylkingin) og Elsa Lára Arnardóttir (Framsókn og frjálsir) settu fram eftirfarandi bókun.

„Bæjarfulltrúar Samfylkingar og Framsóknar og samþykkja úthlutun stofnframlags vegna uppbyggingar almennra íbúða á vegum Leigufélags aldraðra sem og fyrirliggjandi samstarfssamning. Verkefnið er í samræmi við Húsnæðisáætlun Akraneskaupstaðar sem er stefnumarkandi plagg sem öll bæjarstjórnin samþykkti.“

http://localhost:8888/skagafrettir/2020/04/15/stefnt-a-ad-byggja-leiguibudir-a-akranesi-fyrir-17-milljarda-kr/