Kirkjugarðurinn á Akranesi stækkar – nýr hluti vígður í dag


Á undanförnum árum hefur verið unnið að stækkun kirkjugarðsins á Akranesi. Verkinu er nú lokið og garðurinn tilbúin til grafartöku. Nýjasti hluti kirkjugarðsins verður vígður í dag við hátíðlega athöfn.

Þetta kemur fram á vef Akraneskirkju,

Eins og áður segir verður athöfn í dag, miðvikudaginn 23. september, og hefst athöfnin kl. 18.00.

Sr. Þráinn Haraldsson sóknarprestur leiðir athöfnina ogSveinn Arnar Sæmundsson leikur á píanó. Allir eru velkomnir í vígsluna.

Klukkuturninn í kirkjugarðinum fær einnig hlutverk í þessari athöfn. Klukkurnar sem í turninum eru fá að hljóma á ný en ekki hefur heyrst í þeim í mörg ár.

Klukkuturninn var reistur til minningar um fornt kirkjuhald í Görðum. Turninn er teiknaður af Sr. Jóni M. Guðjónssyni. Minnisturninum var valinn staður sem næst því sem menn ætluðu að hafi verið kórstæði síðustu kirkju í Görðum sem var rifinn árið 1896. Fyrsta skóflustungan að turninum var tekin þann 3. júlí árið 1955 en Ásmundur Guðmundsson þáverandi Biskup Íslands vígði turninn árið 1958.