Það er óhætt að segja að samtakamáttur íbúa á Akranesi hafi sýnt sig í verki þegar fréttist að Krónan á Akranesi hefði sagt upp einum af sínum dyggustu starfsmönnum.
Anton Kristjánsson hefur á undanförnum árum verið einn vinsælasti starfsmaður Krónunar á Akranesi. Einstakur starfsmaður að mati flestra, ávallt glaður og kurteis. Á dögunum bárust fréttir af því að Krónan hefði sagt Antoni upp störfum. Dröfn Guðmundsdóttir vakti athygli á stöðunni í færslu á fésbókarsíðunni „Ég er íbúi á Akranesi“ og er óhætt að segja að færsla hennar hafi hreyft við Skagamönnum nær og fjær.
Vel á annað hundrað einstaklingar tjáðu sig um væntanlegan brottrekstur Antons og margir sendu skilaboð til höfuðstöðva Krónunnar í gegnum netið. Rauði þráðurinn í athugasemdum bæjarbúa var sá að flestir ætluðu sér að beina viðskiptum sínum annað vegna uppsagnar Antons.
Sterk viðbrögð bæjarbúa höfðu áhrif og skiluðu árangri.
Anna Bjarnadóttir, móðir Antons, skrifaði í gær á fésbókarsíðuna „Ég er íbúi á Akranesi“ fyrir hönd Antons. Þar sagði hún frá því að Anton myndi halda áfram að taka vel á móti viðskiptavinum Krónunnar á Akranesi.
„Anton er mjög hrærður yfir öllum þeim stuðningi sem hann hefur fundið fyrir vegna uppsagnar sem hann fékk frá Krónunni.
Vegna færslu sem kom inn á síðuna fór eitthvað af stað í samfélaginu og sá þrýstingur skilaði samtali og var Antoni boðið að halda áfram í vinnunni á sínum forsendum. Anton mun taka vel á móti ykkur í Krónunni. Góðar þakkir til ykkar allra og verið góð við hvort annað,“ skrifar Anna Bjarnadóttir.