Stefán Teitur Þórðarson og Tryggvi Hrafn Haraldsson, leikmenn knattspyrnuliðs ÍA, eru sagðir á leið í atvinnumennsku á Norðurlöndunum. Þetta kemur fram í fréttum á fotbolt.net. Sjá hér og hér.
„Það eru miklar líkur á að Stefán Teitur semji við félag erlendis í þessum glugga. Hann er með það lúxus vandamál að velja á milli liða. Hann hefur skorað átta mörk af miðjunni í sumar og vakið athygli,“ sagði Ólafur Garðarsson, umboðsmaður Stefáns, í samtali við Fótbolta.net.
Fjölmiðlamaðurinn Hjörvar Hafliðason er með heimildir fyrir því að Stefán Teitur muni rifja upp dönskukunnáttu sína á næstunni. Og að hann verði leikmaður Silkeborg sem leikur í næst efstu deild.
Hjörvar greindi einnig frá því á Twitter í gær að Tryggvi Hrafn sé á leið til Lilleström í Noregi en liðið leikur í næst efstu deild. Með liðinu leika tveir Skagamenn, Björn Bergmann Sigurðarson og Arnór Smárason.