Brynhildur Björg Jónsdóttir, skólastjóri Vallarsels skrifar:
Undanfarnir mánuðir hafa verið ótrúlegir og ein stór áskorun í íslensku skólastarfi, þegar allt starf breyttist á einni nóttu.
S.l. vetur og vor var talað um fordómalausa tíma en nú er þetta ástand komið til að vera þar til kemur bólefni á markað.
Í Vallarseli sem og í öðrum skólum hefur reynt á úthald, hugmyndaauðgi, samvinnu, jákvæðni og væntumþykju fyrir starfinu sínu. Já ég segi væntumþykju, því í fáum störfum veit ég um hana meiri en í leikskólanum. Þar getur svo sannarleg “Eitt bros dimmu í dagsljós breytt…..”. (úr mögnuðum kvæðabálki Einars Benediktssonar, Einræðum Starkaðar).
Við mætum á morgnana og það er tekið á móti okkur með brosi og fölskvalausri gleði á öllum deildum. Oft segjum við að okkur er fagnað eins og rokkstjörnu. Við okkur er sagt „þú ert í svo fallegum fötum“ eða „það er svo fallegt á þér hárið“. Er hægt að hugsa sé fallegri og betri móttökur?
Í vor var verulega skert skólastarf um tíma og börnum og að hluta starfsmönnum fækkaði í húsi. Þá kom margt áhugavert í ljós í starfinu. En líka skemmtilegt. Þá kom í ljós hvað skiptir miklu máli góð vinnuaðstaða fyrir börn og starfsmenn.
Um langt árabil hefur það verið baráttumál að fækka börnum á deild. Það er stórkostlegt lýðheilsumál bæði fyrir börn og starfsmenn og í raun ótrúlegt að enn skuli vera nánast meitlaður í stein sá fjöldi barna á deild eins og er í dag.
Við þessar breyttu aðstæður varð allt miklu rólegra, alls konar hægt að gera, bæði úti og inni og það sem var svo áberandi að þau börn sem frekar draga sig inn í sína skel í fjöldanum, blómstruðu kannski hvað mest.
Í upphafi faraldurs í vetur og vor voru mjög skiptar skoðanir um hvort skólarnir ættu að vera opnir. Starfsmenn eru í framlínu og frekar óvarðir, svo sem eins og fleiri stéttir. En þegar litið er til baka og til stöðunnar núna held ég að það hafi sannað sig hversu miklu máli það skiptir. Skólinn er griðastaður fyrir svo marga og framhjá því getum við ekki litið.
Í vor gerðist það að mörg börn voru tekin út úr skólanum, vegna óöryggis og ónógra upplýsinga. Margir foreldrar búa líka við þannig aðstæður að hafa lítið eða ekkert bakland. Það á t.d. við um nýbúana sem eru hér í skólanum.
Til að verja starfmenn og í raun líka börn og foreldra höfum við, síðan í vetur, tekið á móti öllum börnum úti við hurð og gaman að sjá hvað börnin eru orðin örugg með að kveðja foreldra sína þar. Það er eins og þau hafi einhvern veginn stækkað og eflst. Þaðan fara þau beinustu leið inn til að þvo sér og er það orðinn svo sjálfsagður hluti af daglegri rútínu að ekki þarf að hafa mörg orð um það. Í lok dags er svo skilað úti í garði. Það er búið að ganga mjög vel. Á meðan getur þá hluti af starfsmönnum sótthreinsað og þrifið extra inni á deildum en það höfum við þurft að gera á hverjum degi síðan í vetur.
En mikilvægast af öllu er að allir leggji sitt af mörkum, ekki bara sumir. Að farið sé eftir reglunum og persónuleg smitvörn, sóttkví og einangrun sé virt. Það eru margir hræddir og margir í störfum sem krefjast að vera í framlínu.
Ekki er hægt að ljúka þessum pistli nema minnast á þátt foreldra sem er mikill og ómetanlegur og ástæða til að þakka sérstaklega fyrir. Þeir hafa sannarlega tekið þátt í þessu öllu með okkur.
Að lokum vil ég sem skólastjóri minnast á alla mína frábæru starfsmenn með einlægu þakklæti og stolti. Við höfum staðið brosandi og jákvæðar saman, talað okkur í gengum ástandið og gert okkar allra besta alla daga.
Ég vil enda þessi skrif á að hvetja alla til jákvæðni, auðmýktar, þolinmæði og gleði í skólastarfinu og lífinu. Það er hægt að komast ansi langt á því viðhorfi.
Ég vil líka enda á að minnast aftur á línuna úr Einræðum Starkaðar, því „Eitt lítið bros getur dimmu í dagsljós breytt“.
Brynhildur Björg Jónsdóttir, skólastjóri í Vallarseli.