Skagmaðurinn Ísak Bergmann Jóhannesson hefur vakið athygli fyrir framgöngu sína hjá sænska úrvalsdeildarliðinu Norrköping. Þrátt fyrir að vera aðeins 17 ára hefur Ísak fengið tækifæri með aðalliði félagsins og látið að sér kveða í markaskorun og í að búa til mörk fyrir liðsfélaga sína.
Hann hefur skorað þrjú mörk á tímabilinu og lagt upp sjö. Ole Gunnar Solskjær knattspyrnustjóri Manchester United hefur fengið fregnir af leikmanninum eins og fram kemur í staðarblaðinu Norrköpings Tidningar.
Þar kemur fram að enska úrvalsdeildarliðið Manchester United hafi augastað á leikmanninum – líkt og ítalska stórliðið Juventus.
Peter Hunt formaður Norrköping segir að ekkert liggi á fyrir Ísak eða félagið að leikmaðurinn taki næsta skref á ferlinum á þessum tímapunkti.
„Við vitum að mörg félög hafa áhuga og ef við færum eftir því sem umboðsmennirnir vilja þá væri búið að selja hann á hverjum degi. Það er mat félagsins að það sé best fyrir leikmanninn að æfa og leika með aðalliði Norrköping á þessum tímapunkti,“ segir Hunt m.a. í viðtalinu.
Ísak Bergmann er samningsbundinn Norrköping til næstu þriggja ára.