Valdís Þóra Jónsdóttir er nýr íþróttastjóri hjá Golfklúbbnum Leyni.
Atvinnukylfingurinn tekur við starfinu í byrjun nóvember en hún hefur stýrt gangi mála í barna – og unglingastarfi Leynis frá því um mitt sumar.
Birgir Leifur Hafþórsson var áður í þessu starfi en hann sagði starfi sínu lausu fyrr á þessu ári.
Valdís Þóra hefur verið í fremstu röð atvinnukylfinga á undanförnum árum en hún er með keppnisrétt á LET Evrópumótaröðinni – sem er sterkasta atvinnumannamótaröð Evrópu í kvennaflokki.
Valdís Þóra er þrefaldur Íslandsmeistari í golfi, 2009, 2012 og 2017. Hún varð einnig Evrópumeistari í liðakeppni árið 2018 .
Valdís Þóra hefur oftast allra verið efst í kjörinu á Íþróttamanni Akraness eða alls sjö sinnum.
Í tilkynningu frá Leyni kemur fram að Valdís Þóra muni sjá um þjálfun barna- , unglinga- og afreksstarfs félagsins ásamt því að sinna almennum félagsmönnum GL.
„Nýr íþróttastjóri hefur skýra framtíðarsýn á starfið og er tilbúin að gera gott starf enn betra með það að markmiði að koma iðkendum sínum í fremstu röð. Það var því mikill gleðidagur í dag þegar Rakel Óskarsdóttir, framkvæmdastjóri GL, og Valdís Þóra undirrituðu samning þeirra á milli. Vertu hjartanlega velkomin til starfa Valdís Þóra,“ segir í tilkynningu frá Golfklúbbnum Leyni.