Börn þurfa rými til að æfa, leika, gera mistök og eignast vini



Edda Ósk Einarsdóttir, deildarstjóri frístundar Grundaskóla skrifar: 

Það er leikur að læra – er fræg setning sem flestum er kunnug, þessi setning á virkilega vel við í frístundastarfi þar sem lögð er áhersla á að efla félags- og samskiptafærni í gegnum leik og starf, sem og virðingu fyrir sjálfum sér, öðrum og umhverfi sínu.

Leikur gegnir mikilvægu hlutverki í þroskaferli barns. Þau eru að æfa sig í samskiptum og hvernig það er að búa í samfélagi margra ólíkra einstaklinga.

Sum börn þurfa aðstoð við að læra að lesa meðan önnur þurfa aðstoð við að læra samskipti og það flókna samspil sem getur átt sér stað í leik og félagslegum samskiptum.

Það er mikilvægt að hlúa að þessum þætti þar sem að samskiptin leggja grunn að vináttu til frambúðar. Það að tilheyra hópi og eiga vin hefur margvíslegan ávinning eins og koma í veg fyrir einmanaleika, aukið sjálfstraust og getur dregið úr líkum á þunglyndi.  

Íslensk börn skora lægst allra Evrópuþjóða í félagsfærni

Það sló mig þegar ég las skýrslu frá Unicef þar sem kemur fram að íslensk börn skora lægst allra Evrópuþjóða í félagsfærni. Það er margt sem bendir til þess að aukinn skjátími barna veldur því að þau eru minna í beinum samskiptum eftir að skóla lýkur. Skólar gera sitt allra besta til að stuðla að jákvæðum samskiptum og efla félagsfærni barna. Skólinn á hins vegar að taka á mjög mörgum þáttum eins og kenna leikfimi, sund, íslensku,stærðfræði, kynfræðslu, list- og verkgreinar o.fl. o.fl. því gefst eflaust ekki sá tími sem þyrfti til í frjálsan leik og samskipti sem börn þurfa til að efla félags- og samskiptafærni. 

Það er því hagsmunamál fyrir börn að þau fái tíma og rúm til að leika sér og eignast vini. Samfélagið þarf að vinna að þessum í sameiningu. Ég veit að við erum þjóð sem getur náð undraverðum árangri með samstilltu átaki, það hefur sýnt sig margoft í sögunni. 

Til dæmis líta margar þjóðir til þess árangurs sem við höfum náð í að draga úr reykingum og áfengisnotkun íslenskra ungmenna. Það er trú mín að allir vilja gera betur til að efla stöðu íslenskra barna og því megum við ekki stinga höfðinu niður í sandinn. 

sdr

Skoðum umhverfið – Hvað getum við gert til að efla og stuðla að bættri félagsfærni barna? 

Ég tel það að minnsta kosti virkilega mikilvægt að við drögum fram mikilvægi leiks og beinna samskipta barna í öruggu umhverfi, börn þurfa rými til að æfa sig, leika sér, gera mistök og eignast vini. 

Edda Ósk Einarsdóttir, deildarstjóri frístundar Grundaskóla skrifar: