„Auðvelt að gleyma sér við það eitt að horfa á tréð“



Umhverfisviðurkenningar Akraneskaupstaðar fyrir árið 2020 voru afhentar nýverið en slíkar viðurkenningar eru árlegur viðburður. Skipulags- og umhverfisnefnd Akraneskaupstaðar hefur umsjón með verðlaununum og tekur ákvörðun um hverjir hljóta viðurkenningar hverju sinni í samráði við fagfólk.

Stórt og fallegt fjallagullregn við íbúðarhús að Bjarkargrund 37 var að þessu tilefni valið tré ársins 2020 á Akranesi. 

Jóhanna Arnbergsdóttir og Jón Sævar Hallvarðsson gróðursettu þetta tré árið 1985 en það á ættir að rekja til fjallasvæða í suðurhluta Evrópu frá Frakklandi til Balkanskagans.

„Það gladdi okkur mjög mikið að fá þessa viðurkenningu frá Akraneskaupstað. Það lyfti okkur aðeins upp á þessum undarlegu tímum,“ segir Jóhanna í samtali við Skagafréttir. 

Í umsögn dómnefndar kemur m.a. fram að tréð er með öflugan stofn og setur svip á aðkomu og götumynd. Tréð myndar umgjörð um inngang hússins og gerir framhlið þess einstaklega aðlaðandi. Það er formfallegt og blómstraði stórkostlega í sumar.


„Við byggðum þetta hús hér við Bjarkargrund 37 og fluttum hingað inn árið 1974. Garðurinn er sameiginlegt áhugamál okkar. Við höfum bæði gaman af því að dunda okkur í garðinum. Ég er meira í blómunum en Jón Sævar hefur meiri áhuga á trjánum. Okkur minnir að gullregnið okkar sé 35 ára gamalt eða frá árinu 1985. Við höfðum séð slík tré víða áður en við gróðursettum okkar tré – og völdum þessa tegund þar sem okkur þótti tréð vera fallegt,“ segir Jóhanna. 

Jóhanna segir að tré ársins 2020 á Akranesi hafi verið óvenjufallegt á liðnu sumri. 

„Það er í mestum blóma í kringum bæjarhátíðina Írska daga og vikurnar þar á eftir. Tréð vekur athygli þeirra sem eiga hér leið um og s.l. sumar voru mjög margir sem stoppuðu fyrir framan húsið til að skoða tréð. Það er auðvelt að gleyma sér við það eitt að horfa á tréð þegar það er í fullum skrúða fyrripart júlímánaðar,“ segir Jóhanna Arnbergsdóttir. 

Í dómnefnd á vegum ráðsins eru þau Helena Guttormsdóttir lektor LbhÍ, Sindri Birgisson umhverfisstjóri og Ása Katrín Bjarnadóttir Bs. í landslagsarkitektúr LbhÍ.

Nefndin fór í vettvangsferðir í júlí og tók út tilnefningar. Þau unnu m.a. með fagurfræði, fjölbreytileika og samtal við almenningsrými. Markmiðið var að vekja í víðum skilningi athygli á atriðum sem skipta uppbyggingu og framtíð bæjarins máli.

Í lok október fóru fulltrúar nefndarinnar víða um bæinn til að afhenda viðurkenningar – og fylgdi ráðið sóttvarnartilmælum í hvívetna. Ragnar B. Sæmundsson bæjarfulltrúi og formaður stýrði dagskrá, ásamt ráðsmönnunum Guðríði Sigurjónsdóttur og Ólafi Adolfssyni.

Fjallagullregn er harðgert tré af ertublómaætt. Það blómgast mest á sólríkum stöðum og er þokkalega vind – og saltþolið. Það þarf þolinmæði til þess að njóta þess að sjá slík tré blómgast því það tekur allt að 10 ár fyrir fjallagullregnstréð að blómgast – og stundum gerist það enn seinna á æviskeiði fjallagullregnsins.