Staða náms og kennslu til umræðu á opnum netfundi FVA„Þessi netfundur er tilraun hjá okkur til að ná til fólks þegar aðstæður eru eins og þær eru. Markmið fundarins er að gefa fólki kost á að spjalla við okkur núna augliti til auglitis nú þegar skólahúsnæðið  hefur verið lokað með hléum alla önnina og samskipti fara meira og minna fram um netið,“ segir Steinunn Inga Óttarsdóttir skólameistari Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi við skagafrettir.is. 

Stjórnendur FVA hafa boðað til netfundar fimmtudaginn 19. nóvember þar sem að staða náms og kennslu í covidfaraldri verður efst á baugi. Viktor Elvar Viktorsson formaður skólanefndar stýrir fundinum sem hefst kl. 17.  

Fundurinn er haldinn á Teams og það eru allir hjartanlega velkomnir að taka þátt. Tengill fyrir fundinn verður á vef skólans, fva.is. 

Steinunn segir ennfremur að síðustu mánuðir hafa verið óvenjulegir í FVA eins og víðar í samfélaginu. 

Steinunn Inga Óttarsdóttir.

„Nám og kennsla hafa einkennst mjög af sambúð með kórónuveirunni og höfum við gengið í gegnum amk sjö breytingar á skólastarfi vegna sóttvarnarreglna nú á haustönn. Það er ljóst að ástandið hefur sett sitt mark á skólastarfið. Sem dæmi má nefna að kynningarfundur fyrir nýnema sem vanalega er haldinn í upphafi  haustannar féll niður, félagslífið hefur verið í lamasessi og grímuskylda. Það er alltaf gott að ræða málin, spá í stöðuna og velta hlutum fyrir sér. Ég vænti þess að forráðamenn og nemendur og aðrir áhugasamir nýti tækifærið til að heyra í okkur og skjóta á okkur fyrirspurnum sem á þeim brenna. Ég veit að margir eru að velta því fyrir sér hvernig hefur gengið á önninni og hvernig skólastarfið verði á næstu önn. Og við munum svara öllum spurningunum eftir bestu getu -og vonandi gengur þessi tilraun það vel að við boðum til slíks fundar á ný,“ segir Steinunn Inga.