Getraunaáskorun tippklúbbs Knattspyrnufélags ÍA rúllar nú inn í sjöundu viku tímabilsins.
Örn Gunnarsson náði 11 réttum um liðna helgi og þar með féll Jón Örn Arnarson úr leik. Jón Örn á enn möguleika á að komast í úrslitakeppnina þar sem hann náði að vera samfellt í fjórar vikur í þessari keppni.
Örn Gunnarsson og Sigurður Páll Harðarson.
Sigurður Páll Harðarson, sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs Akraneskaupstaðar, tekur við keflinu af Jóni Erni.
Örn, sem er framkvæmdastjóri LEX, og Sigurður Páll, eru báðir fyrrum bakverðir úr röðum ÍA. Granítharðir leikmenn báðir tveir – en sagnfræðin lýgur ekki og þeir unnu aldrei til verðlauna í knattþrautum KSÍ á sínum tíma. Tæknin er hinsvegar ekkert að þvælast fyrir þeim félögum í getraunaáskorun tippklúbbsins sem fer öll fram á netinu.
Getraunastarf Knattspyrnufélags ÍA hefur í gegnum tíðina verið fastur punktur í tilverunni hjá fjölmörgum á Akranesi. Vegna aðstæðna í samfélaginu hefur tippklúbbur KFÍA lagt áherslu á að nýta tæknina í getraunastarfinu og er það leikur einn að taka þátt og styðja við bakið á KFÍA á sama tíma.
Getraunakeppnin er með þeim hætti að keppendur fylla út 96 raðir í Enska boltanum. Sá sem fær fleiri rétta er sigurvegari og fær nýjan mótherja í næstu umferð. Ef jafnt er hjá keppendum þá halda þeir báðir áfram í næstu umferð.
Úrslit úr fyrri umferðum:
1. Sigmundur Ámundason – Kristleifur Skarphéðinn Brandsson.
2. Sigmundur Ámundason – Jón Örn Arnarson.
3. Jón Örn Arnarson – Bryndís Guðjónsdóttir.
4. Jón Örn Arnarson – Bryndís Guðjónsdóttir.
5. Jón Örn Arnarson – Bryndís Guðjónsdóttir.
6. Jón Örn Arnarson – Örn Gunnarsson.
7. Örn Gunnarsson – Sigurður Páll Harðarson.
Í lok tímabilsins fer fram keppni á milli þeirra tippsérfræðingar sem sigrað hafa í flestum viðureignum eða náð bestum árangri. Nánari útfærsla á úrslitakeppninni verður birt síðar.
Einar Brandsson er í forsvari fyrir getraunastarf KFÍA. Einar segir í samtali við Skagafréttir að vegna Covid-19 sé ekki hægt að hefja hið hefðbundna getraunastarf með venjulegum hætti.
„Það er mikil þörf að styðja við bakið á KFÍA með þessum hætti. Þeir sem vilja taka þáttt geta sent inn sínar raðir á [email protected] – það þarf að gerast fyrir kl. 10.00 á laugardagsmorgni.
Þessar raðir verða þá settar inn í kerfið hjá okkur. Þeir sem tippa í gegnum getraunakerfi KFÍA styrkja okkar félag aukalega þar sem hærra hlutfall af hverri röð rennur beint til KFÍA heldur en ef tippað er á 1×2.is eða á sölustöðum.
Þeir sem tippa ráða svo hvort þeir setja miðann inn í kerfi 1×2.is til að eiga möguleika á vinning. Miði með 96 röðum kostar 1.440 kr,“ segir Einar Brandsson við skagafrettir.is.
Þess má geta að það eru 190 milljónir kr. í vinning fyrir 13 rétta um þessa helgi.