„Ási Haralds“ tekur við liði Kára

Ásmundur Haraldsson er nýr þjálfari Knattspyrnufélagsins Kára á Akranesi. Hann tekur við starfinu af Gunnari Einarssyni.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kára.

Ásmundur, sem er býsettur á Akranesi, hefur mikla reynslu sem þjálfari en hann var aðstoðarþjálfari FH á meðan Ólafur Kristjánsson var þjálfari liðsins. Hann hefur einnig verið aðstoðarþjálfari íslenska kvennalandsliðsins.

„Ási“ lék m.a. KR, Þrótti R. ÍR og Gróttu sem leikmaður. Hann stýrði m.a. liði Gróttu upp úr 3. deild í næst efstu deld.

„Prófill Ása er frábær í það mikla og góða starf sem Kári býður upp á fyrir unga og efnilega leikmenn í bland við kjarnahóp Kára sem inniheldur mikið af reynslumiklum leikmönnum,“ segir í tilkynningunni frá Kára.

Kári leikur í þriðju efstu deild eða 2. deild karla. Liðið endaði í 7. sæti á síðustu leiktíð.