Ísland fer í úrslitakeppni EM 2022 – Jón Þór stýrði landsliðinu á fjórða stórmótið

Íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu komst í kvöld í úrslitakeppni Evrópumótsins sem fram fer á Englandi sumarið 2022. Þetta er í fjórða sinn sem Ísland kemst í úrslitakeppni EM kvennalandsliða.

Jón Þór Hauksson frá Akranesi er þjálfari liðsins og Hallbera Guðný Gísladóttir fyrrum leikmaður ÍA er lykilmaður liðsins.

Ísland lagði Ungverjaland í dag 1-0 á útivelli í lokaleik sínum í undankeppninni. Þar með endaði Ísland í öðru sæti riðilsins á eftir Svíum – sem fara beint á EM.

Úrslit kvöldsins reyndust íslenska liðinu hagstæð. Og eftir að Belgía vann sigur á Sviss var endanlega ljóst að Ísland var komið í hóp þeirra liða þriggja liða sem verður með bestan árangur í öðru sæti riðilsins. Ísland þarf því ekki að fara í umspil um að komast á EM.

Skotland og Ítalía eiga enn möguleika á að jafna við Ísland en eins og áður segir er það ljóst að Ísland fer á EM 2022.

Mótið átti að fara fram sumarið 2021 en vegna þess að úrslitakeppni í EM karla var frestað fram til ársins 2021 vegna Covid-19 var EM kvenna einnig ýtt aftur um eitt ár.