Arnór, Tryggvi og Björn komnir í efstu deild með Lillestrøm

Norska liðið Lillestrøm leikur i efstu deild á næsta tímabili. Með liðinu leika þrír leikmenn frá Akranesi, Arnór Smárason, Tryggvi Hrafn Haraldsson og Björn Bergmann Sigurðarson.

Tryggvi Hrafn tryggði Lillestrøm stig í gær þegar hann jafnaði leikinn gegn Ham/Kam í 1-1 jafntefli.

Leikmenn Lillestrøm fögnuðu áfanganum saman í dag þegar ljóst var að liðið væri komið á ný á meðal þeirra bestu í Noregi.

Í dag tapaði helsti keppinautur Lillestrøm um næst efsta sætið, Sogndal, og þar með er ljóst að Lilleström leikur á meðal þeirra bestu á næstu leiktíð.

Lillestrøm er eitt af sögurfrægustu félagsliðum Noregs. Liðið féll í fyrra úr efstu deild eftir að hafa verið í deild þeirra bestu í Noregi í 45 ár samfellt – sem er met í Noregi.

Liðið hefur fimm sinnum fagnað Noregsmeistaratitlinum, síðast árið 1989 og átta sinnum hefur liðið unnið norska bikarinn – síðast árið 2001.

Tromsö er öruggur sigurvegari í OBOS-deildinni, næst efstu deild, en Lillestrøm er fjórum stigum á eftir efsta liðinu fyrir lokaumferðina sem fram fer um næstu helgi.

Sogndal tapaði 2-0 gegn Jerv í dag og þar með var sæti Lillestrøm í úrvalsdeild tryggt. Lillestrøm er sex stigum á undan Sogndal fyrir lokaumferðina um næstu helgi. Lillestrøm er í 2. sæti, fjórum stigum á eftir toppliði Tromsö, en tvö efstu liðin fara beint upp í efstu deild.

Tryggvi Hrafn samdi við Lillestrøm út þessa leiktíð fyrr á þessu ári en hann fór frá Akranesi í byrjun október á þessu ári. Hann er samningslaus en miðað við framlag hans á lokakaflanum er ekki ólíklegt að forráðamenn Lillestrøm hafi áhuga á að semja við Tryggva Hrafn. Hann hefur leikið 9 leiki með Lillestrøm frá því í október, skorað 4 mörk og lagt upp 2.

Björn Bergmann samdi við Lillestrøm á þessu ári en hann hefur glímt við meiðsli í haust. Á tímabilinu hefur hann komið við sögu í 7 leikjum og skorað eitt mark.

Arnór Smárason er að klára samning sinn við Lillestrøm en hann samdi við liðið árið 2018. Hann er 32 ára og hefur lítið komið við sögu á þessu tímabili vegna meiðsla.

https://twitter.com/arnorsmaRa/status/1335961590903037952/photo/1