Jón og Sigurbjörg fengu óvænta en skemmtilega kveðju frá börnunum

Hrossræktarbúið Skipaskagi er eitt af þrettán slíkum búum sem tilnefnd eru sem hrossaræktarbú ársins 2020.

Það er fagráð í hrossarækt sem stendur að þessari tilnefndingu.

Hjónin Jón Árnason og Sigurveig Stefánsdóttir hafa á undanförnum árum byggt upp myndarlegt ræktunarbú á bænum Litlu-Fellsöxl í Hvalfjarðarsveit.

Börn þeirra Jóns og Sigurveigar eru afar ánægð með tilnefninguna og settu þau saman myndband þeim til heiðurs að þessu tilefni.

Myndbandið er hér fyrir neðan.

Eiðfaxi greindi fyrst frá en í tilkynningu frá systkinunum fimm sem komu að þessu myndbandi segir m.a.

Við systkinin höfum tekið saman þetta myndband og munu mamma og pabbi fyrst sjá þetta hér, þau hafa ekki grænan grun um þetta. Gott að við höfum aðgang að síðunni þeirra því við hefðum líklegast aldrei fengið leyfi til að birta þennan pistil og myndbandið annars.

Mamma og pabbi hafa lagt líf sitt og sál í hrossarækt og hafa unnið af einstakri eljusemi og áhuga í nokkra áratugi. Það má segja að ástríða fyrir hestum hafi fært þau saman og líklegast það sem hefur haldið þeim saman alla þessa áratugi. Það sem hefur einkennt mömmu og pabba í þeirra hestamennsku er mikil væntumþykja á hestunum sínum, þau hugsa virkilega vel um hvern og einn þeirra.

Þau hafa líka lagt ríka áherslu á að hestamennskan sé skemmtileg, eins og mamma segir svo oft „þetta á að vera skemmtilegt“.

Þau tengjast alls konar fólki í gegnum hestana og það er verulega dýrmætt.

En allir sem stunda hestamennsku vita að það eru ekki alltaf jólin í þessu – stundum gengur vel og stundum ekki. Það gengur einnig á ýmsu…slys, veikindi og jafnvel hafa fallið frá ung og efnileg hross sem hefur verið þeim þungbært í gegnum tíðina. En þau hafa lagt upp með að dvelja ekki við svekkelsið, heldur haldið áfram veginn.

Það er staðreynd hjá þeim eins og öðrum að þau eru ekkert að yngjast, en maður minn – krafturinn í þeim er óþrjótandi!

Þessi dugnaður og kraftur er okkur svo sannarlega til eftirbreytni. Það hefur verið aðdáunarvert og hvetjandi fyrir okkur krakkana að fylgjast með árangri þeirra í hrossarækt í gegnum árin.

Slíkur árangur næst ekki á einni nóttu og ekki án aðstoðar, en þar hefur þó haft mikið að segja þeirra vinnusemi, þrautseigja, þolinmæði, útsjónarsemi og síðast en ekki síst – skýr ræktunarmarkmið þeirra síðastliðna áratugi. Eins þarf að hafa trú á verkefninu, sem þau hafa alla tíð haft.

Þau hafa hlotið fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir sína hrossarækt og tókum við því saman myndband sem fer yfir það helsta í gegnum tíðina. Lagavalið er sérvalið, enda ómaði það oft á rúntinum þegar við vorum krakkar og það tengir okkur öll. Með þessu myndbandi langar okkur systkinin að heiðra þau – mömmu og pabba – fyrir þeirra frábæra ævistarf sem er sko hvergi nærri lokið.

Mamma og pabbi, við erum að rifna úr stolti. Þið eru okkar fyrirmyndir í lífinu. Ykkar börn, Aldís, Reynir, Gréta, Ólöf og Stefán.

P.S. Mun færri hross rötuðu í myndbandið en við hefðum viljað, oft vantaði myndefni og eins vildum við halda okkur innan ákveðins tímaramma. Því ákváðum við að einblína að mestu leyti á þeirra ræktunarmerar og stóðhesta (sum þeirra þó seld) og eins líf þeirra í kringum hestamennskuna. Myndbandið er rúmlega 7 mínútur, en alveg hverrar sekúndu virði að okkar mati! Myndirnar eru fengnar héðan og þaðan og eru m.a. myndir eftir Kolbrúnu Grétarsdóttur, Carolin Giese, Silju Svansdóttur og Jón Björnsson.