Eitt það besta sem foreldrar geta gert með börnum sínum

Pistill frá starfsfólki Bókasafns Akraness:

Einn lykilþáttur að góðri heilsu er að hafa góð félagsleg tengsl við sína nánustu fjölskyldu og vini. Við þurfum að gefa okkur tíma til samverustunda og þær geta verið með ólíkum hætti hjá hverjum og einum. 

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um gagnsemi þess að lesa fyrir börn, og þeim grunni að eðlilegum og góðum samskiptum barna og foreldra sem lagður er með lestrarstund. Að lesa fyrir barnið sitt er eitt það besta sem foreldrar geta gert með börnum sínum.  Slík samverustund skapar hlýju, hvíld frá daglegu amstri,  eflir tengsl foreldris og barns, skapar umræður og eykur orðafora barnsins. Í góðri samverustund erum við til staðar fyrir þau sem eru með okkur og mikilvægt er að við hlustum vel hvert á annað og vera tilbúin að ræða saman.  Vera til staðar. 

Það er mikilvægt að lesa fyrir börnin strax frá unga aldri og ekki hætta þó börnin séu orðin læs. Fyrst myndabækur og halda síðan áfram. Nálgun við unglinga þarf að vera á öðrum nótum en með yngri börnin, oft virkar það vel að velja sameiginlega bók, að foreldri lesi sömu bók og barnið sitt eða unglingurinn, á sama tíma. Og ræða síðan saman um efni bókarinnar. Slík samverustund er þroskandi og gefandi fyrir unglinginn og hér skiptir máli að velja gott lestrarefni svo lestur verði áhugaverður fyrir unglinginn til framtíðar. 

Aðstæður leyfa ekki núna að fjölskyldur fari saman á Bókasafnið til að dvelja, en slíkar samverustundir eru mjög gefandi. Hvíla þig á síma, snjalltækjum og taka þátt í starfi á bókasafninu þínu. Bókasafnið er opið þessa daganna, en með takmörkunum. Í eðlilegu árferði fer fram á bókasafninu fjölbreytt starfsemi þar sem fólk kemur á eigin forsendum og tekur þátt í því sem hentar.

Á mánudögum hittast prjónakonur, heklhópur á þriðjudögum, leshringir á fimmtudögum og foreldramorgnar eru á fimmtudagsmorgnum.  Þar koma saman foreldrar í fæðingarorlofi og af og til yfir veturinn er boðið upp á fræðsluerindi. Og ekki má gleyma karlaspjallinu í hádeginu á föstudögum.

Laugardagar eru fjölskyldudagar á Bókasafninu og þá er boðið upp á eitthvað skemmtilegt. Þessi starfsemi miðar að samverustundum fólks og hvetur til félagslegrar virkni. Og ekki síður er mikilvægt spjallið yfir afgreiðsluborðið. Að eiga bókasafnskort  er fyrsta skrefið til þátttöku.

Nýlega lét Miðstöð íslenskra bókmennta, í samstarfi við sex aðila á bókmenntasviðinu, gera könnun á viðhorfi Íslendinga til bóklestrar, áhrif Covid-19 á lestur og fleira. Þar kom fram að Covid hefur haft þau áhrif að lestur hefur auskist og lesa landsmenn núna að jafnaði 2,5 bækur á mánuði. Þá kom einnig fram að helmingur landsmanna nýtir  sér þjónustu bókasafna.

Það er margt fleira hægt að gera til að skapa skemmtilega samverustund,  sem kostar lítið eða ekkert. Efna til spilakvölds með fjölskyldunni er vinsælt. Það er eitthvað sem allir hafa gaman af og  það er hægt að skipa þannig í hópa að allir njóti sín. Og bráðum verður vonandi hægt að koma á bókasafnið og spila.

Nú er veturinn farinn að minna á sig og þegar fer að snjóa þá er um að gera að fara út með börnunum og leika sér í snjónum, rifja upp barnið í sjálfum sér. Að renna á sleða, byggja snjóhús er eitthvað sem skilur eftir sig góðar minningar um yndislegar samverustundir. Eða að fara í göngutúr og fá  sér svo heitt kakó.

Að baka piparkökur og piparkökuhús með ömmu eða afa og skreyta er góð samverustund og þá koma í ljós listrænir hæfileikar barnanna. Það þarf ekki „að baka“ því hægt er að kaupa tilbúin piparkökuhús og kökur, það eina sem þarf að gera er að setja það saman. Svo er hægt að búa til eða kaupa tilbúinn glassúr, eitthvað nammi og skraut og öll fjölskyldan getur dúllað sér við þetta eina kvöldstund. Að skapa hefðir að góðum samverustundum, skapa eigin jólahefðir eru verðmæti sem eykur vellíðan okkar. Fyrir bökunarfólkið minnum við á að hægt er að fá lánuð bökunarform á bókasafninu.

Skógræktin eða Garðalundur er ævintýraheimur allan ársins hring en nú í desember er hægt að upplifa jólastemningu sem er engri lík.

Bærinn okkar er fallega skreyttur og það er tilvalið að fara í bíltúr skoða jólaljós og skreytingar. Skógræktin eða Garðalundur er ævintýraheimur allan ársins hring en nú í desember er hægt að upplifa jólastemningu sem er engri lík. Að þessu sinni verður hún með breyttu sniði út af kófinu, en það kemur ekki í veg fyrir að bæði börn og fullorðnir geti átt dásamlegar samverustundir í skógræktinni. Hvetjum alla til að fara í skógræktina á aðventunni og út jólin, með vasaljós og síma.

Að lokum, bækur geta líka verið uppspretta að skemmtilegri útivist fjölskyldunnar og samveru og má þar nefna nýútkomna bók Hallberu F. Jóhannesdóttur, Á ferð og flugi með ömmu í Akrafjalli, en bókin er sjálfstætt framhald bókarinnar Á ferð og flugi með ömmu. Báðar bækurnar eru ríkulega myndskreyttar af Bjarna Þór Bjarnasyni. Að  útiveran verði að skemmtilegari fræðandi samverustund barna og fullorðinna.

Óskum ykkur gleðilegrar jólahátíðar og farsældar á komandi ári.
Starfsfólk Bókasafns Akraness.