Skagafiskur í jólaskapi og fjölbreytt úrval í boði fyrir jólahátíðina

Fjölskyldufyrirtækið Skagafiskur hefur kryddað matarmenningu Skagamanna nær og fjær frá því að fiskverslunin opnaði í mars á þessu ári. 

Pétur Ingason, eigandi Skagafisks, segir að framundan sé skemmtilegur tími og margar gæðavörur séu í boði á jólaborðið hjá Skagafiski. 

„Skatan er stór hluti af jólaundirbúningnum hjá mörgum og skemmtileg hefð er til staðar á Íslandi sem tengist skötu á Þorláksmessu. Skatan er komin til okkar og er klár í kælinum, við pökkum skötunni í lofttæmdar plastumbúðir. Hver pakkning er um 1 kg. og að sjálfsögðu eigum við hnoðmör og hamsatólg til þess að hafa með skötunni sem er bæði hægt að fá kæsta og einnig kæsta og saltaða,“ segir Pétur og bendir á að valkostir séu í stöðunni fyrir þá sem ekki kjósa að borða skötu á Þorláksmessu.  

„Við erum með nóg af saltfiski og vinsæla saltfiskréttinn okkar fyrir þá sem vilja taka þátt án þess að kaupa skötuna,“ segir Pétur sem rekur Skagafisk ásamt eiginkonu sinni, Jónheiði Gunnbjörnsdóttir og syni þeirra Björgvini Inga. 

Skagafiskur hefur að sögn Péturs gengið vel þrátt fyrir undarlega tíma í kjölfar Covid-19. „Við opnum Skagafisk þegar Covid-19 faraldurinn er að byrja. Þetta ár hefur verið áskorun en við erum ánægð með viðtökurnar og Akurnesingar hafa tekið okkur mjög vel.“

Það er ekki aðeins fiskur sem gleður marga í aðdraganda jólahátíðarinnar. Humar nýtur vinsælda á þessum árstíma. 

„Við erum með gómsæta humarsúpu sem við seljum í eins lítra pakkningu fyrir fjóra fullorðna. Við erum einnig með skelflettann humar sem gott er að setja út í súpuna – sem er frábær forréttur. Humar í skel er ómissandi forréttur á jólunum hjá mörgum. Það jafnast fátt við humar sem er bakaður í ofni með hvítlauk, og humarinn færðu hjá okkur. VIð erum einnig með hörpuskel fyrir þá sem það kjósa. Grafni laxinn er einstaklega góður í ár og mælum við sérstaklega með honum.  Reykti laxinn eða reykt bleikja er ekki síðri og við erum að sjálfsögðu með graflaxsósu,“ segir Pétur og heldur áfram að telja upp lostæti sem tengjast jólahátíðinni. 

 „Það má að sjálfsögðu ekki gleyma jólasíldinni og rúgbrauðinu sem við bökum sjálf. Að mínu mati koma varla jól án þessarar tvennu. Rúgbrauðið okkar sem hún Jónheiður Gunnbjörnsdóttir á heiðurinn af er orðið vel þekkt hér á Skaganum enda er það einstaklega gott,“ segir Pétur að lokum.