Nokkrar athugasemdir við grein Guðjóns S. Brjánssonar

Aðsend grein frá Þórði Magnússyni, Vallanesi;
Höllu Guðnadóttur og Ólafí Ólafssyni, Marbakka.

Nokkrar athugasemdir við grein Guðjóns S. Brjánssonar í Skagafréttum 16. nóvember um færslu þjóðvegar 1 vestur fyrir Akrafjall. Þar reifar hann nokkur atriði sem tengjast færslu þjóðvegarins sem byggir á þverun Grunnafjarðar og hann segir á teikniborði Vegagerðarinnar.  Tilgangur Guðjóns með greininni er að fá fram umræðu um þetta álitamál og fjölþætta hagsmuni því tengdu.

Guðjón minnist m.a. á styttingu leiðarinnar milli Akraness og Borgarness sem hann telur vera sjö kílómetra og telur að umferðaröryggi verði meira á nýrri leið og talar í því sambandi um þrjátíu vegslóða og varasöm gatnamót á núverandi leið. Þá minnist hann einnig á að Grunnafjarðarleiðin stytti hringveginn frá Reykjavík til Borgarness um mest einn kílómetra

Staðreyndin er sú að færsla þjóðvegar 1 vestur fyrir Akrafjall styttir ekki leiðina frá suðvesturhorninu  norður og vestur heldur lengir hana um einn til tvo kílómetra. Hvað þrjátíu vegarslóða varðar og varasöm gatnamót virðist ekki eiga að loka þeim vegum enda sennilega að mestu aðkomur að sveitabæjum.  Augljóst er að þeir sem eiga leið um þá þurfa að lengja leið sína og fjölgar gatnamótum hjá þeim þar sem gamli vegurinn verður ekki lagður af.

Því má svo bæta við að ef hin nýju Hvalfjarðargöng sem eru á teikniborði Vegagerðarinnar verða látin opnast til austurs á norðurströnd Hvalfjarðar myndi leiðin í Borgarnes um þjóðveg 1, norður og vestur styttast um 4 – 5 kílómetra.  Það á að sjálfsögðu líka við um leiðina til  Grundartanga en þangað er mikil umferð af höfuðborgarsvæðinu, hugsanlega ekki minni en á Akranes.  Viðbótarkostur við þessa leið er að þá munu austan vindar hjálpa til við að loftræsta Hvalfjarðargöngin en full þörf er á því suma daga eins og allir vita.

Guðjón vísar í niðurstöðu veðurfræðings um að Grunnafjarðarleiðin muni að öllum líkindum stuðla að auknu umferðaröryggi vegna þess að þau tilfelli þar sem saman fari ofsaveður og hálka verði færri.

Þetta er ekki rétt. Aðstæður vestan Akrafjalls eru í veðurfarslegu tilliti svipaðar og á Kjalarnesi og undir Hafnarfjalli.  Þar koma stormhviður sem engu eira.  Að bæta þriðja hættusvæðinu við á þjóðveg 1 á þessum kafla er ekki forsvaranlegt (strætisvagn fauk þarna út af fyrir fáum árum og jeppi sem stóð á bæjarhlaði á svæðinu rúllaði af stað í einni hviðunni).

Guðjón minnist á að Akranes hafi betri möguleika á auknum viðskiptum yrði Grunnafjarðarleiðin valin en telur þó að skoða þurfi þessar hugsanlegu vegaframkvæmdir með tilliti til umhverfissjónarmiða og náttúruverndar. Hann segir að Vegagerðin telji að þær kröfur megi uppfylla með mjög ásættanlegum hætti.

Ef markmiðið með færslu vegarins er að þvinga umferðina nær Akranesi í von um aukin viðskipti eru margar aðrar aðferðir ódýrari fyrir þjóðarbúið. Akranes hefur nú þegar fjölmargt áhugavert að bjóða ferðamönnum þótt alltaf megi gera betur, t.d. í menningu, listum og hóteluppbyggingu.  Sem vegasjoppuáfangi er bærinn varla inni í myndinni því hann er allt of nálægt höfuðborgarsvæðinu til þess.  Ferðalangar aka lengra en 50 kílómetra í hverjum áfanga og það er samt nokkurra kílómetra krókur inn á Skaga.  

Fyrirhugað vegarstæði yfir Grunnafjörð liggur um fuglafriðland sem nýtur alþjóðlegrar verndar Sameinuðu þjóðanna (Ramsarfriðunar). Sömu friðunar og Mývatn og Þjórsárver. Vegur yfir þveran Grunnafjörð mundi stórspilla fuglafriðlandinu og það er aldrei ásættanlegt.

Samkvæmt teikningu liggur vegarstæðið einnig yfir ræktað land og mun spilla landi margra bænda.  Við þessa framkvæmd er mikið land lagt undir vegi og engu landi skilað til náttúrunnar eða bænda.  Ef gert er ráð fyrir 100 metra breiðri spildu fyrir veginn og nýr hluti hans yrði 14 km er um að ræða 1,4 ferkílómetra eða 140 hektara. Marga kílómetra af skurðum þarf að grafa til að þurrka vegarstæðið og það teljast náttúruspjöll á nútímaHundrað og fjörtíu hektarar af frjósömu gróðurlendi og alþjóðlegu friðlandi færu hér undir óþarfan veg  með óásættanlegu kolefnisspori.  

Er veglína um mynni Grunnafjarðar þjóðhagslega hagkvæm og hvaða náttúruspjöll eru mjög ásættanleg að mati Vegagerðarinnar?

Færsla þjóðvegar 1 styttir vissulega leiðina milli Akraness og Borgarness um kannski 7 kílómetra.  Spurningin er hversu margir eiga leið þar á milli.  Rétt væri að athuga hversu mikla umferð er þarna um að ræða og hvort það réttlæti kostnaðinn við framkvæmdina og að lengja akstur allra annnarra.  Kostnaðartölur sem bornar eru upp í greininni eru ekki mjög sannfærandi.  Að það sé bara 12% dýrara að leggja nýjan veg með stórri brú, nýjum vegtengingum, uppkaupum á landi og framræsingu mýra heldur en að tvöfalda gamla veginn er ekki mjög líklegt. Þess má líka geta að þar sem hugsanlegt brúarstæði er fyrirhugað eru sjávarfallastraumar mjög stríðir og gríðarleg efnistilfærsla á sér þar stöðugt stað og því gæti framkvæmdin orðið dýrari vegna þess.

Að mati undirritaðra er hugmyndin um breytingu á þjóðvegi 1 með þverun Grunnafjarðar afleit og í hróplegri andstöðu við náttúruverndarsjónarmið nútímans fyrir utan fyrirsjáanlega og óásættanlega sóun á almannafé. Kostina virðist vart vera hægt að greina með stækkunargleri.

                                                       10. desember 2020
Þórður Magnússon, Vallanesi;
Halla Guðnadóttir og Ólafur Ólafsson, Marbakka.

http://localhost:8888/skagafrettir/2020/11/16/skiptir-thverun-grunnafjardar-mali/