„Það er alltaf gaman í vinnunni og við kvörtum ekki þrátt fyrir Covid-19 ástandið. Þetta ár verður eftirminnilegt en við tökum bara einn dag í einu og reynum að komast í gegnum þetta ástand líkt og aðrir,“ segir Gísli Guðmundsson á Rakarastofu Gísla sem fagnar 30 ára starfsafmæli fimmtudaginn 17. desember.
Gísli opnaði Rakarastofu Gísla á Akranesi þann 1. september árið 2007 en hann hóf starfsferlinn á Perma á Eiðistorgi þann 17. desember árið 1990.
„Ég vildi prófa að vinna við eitthvað þar sem ég gæti notað hendurnar við að skapa eitthvað. Hárskeri var eitt af því og ég fékk tækifæri á stofu sem heitir Perma á Eiðistorgi. Ég fór síðan í Iðnskólann og kláraði sveinsprófið árið 1994. Þar gekk mér vel, var með hæstu einkunn, af alls 24 nemendum,“ segir Gísli en hann kom við á nokkrum stofum áður en hann flutti á Akranes árið 2007.
„Ég var um tíma á Greifanum á Hringbraut, hjá Hársnyrtistofu Dóra við Langholtsveg og Klippistofu Jörgens. Ég lét vaða að opna Rakarastofu Gísla haustið 2007 og það hefur gengið vel og verið skemmtilegt. Frá árinu 2011 hefur stofan verið hér á Stekkjarholti og það hefur verið nóg að gera,“ segir Gísli.
Gísli og Carmen Llorens sjá um að klippa og snyrta viðskiptavini Rakarastofu Gísla en Carmen hóf störf að nýju á stofunni í desember 2017.
„Það er fólk á öllum aldri sem kemur til okkar. Þar sem við erum tvö að klippa þá getum við tekið okkur frí af og til. Það skiptir miklu máli að fá tækifæri til að „anda aðeins“ og gera eitthvað annað en að vinna. Ég er þakklátur fyrir móttökurnar sem Rakarastofa Gísla hefur fengið hjá Skagafólki – og viðskiptavinir stofunnar koma víða að.“
Gísli segir að lokum að hann ætli að fagna 30 ára starfsafmælinu með góðu konfekti á stofunni og smá kaffisopa með.