Kylfingur ársins – Valdís Þóra Jónsdóttir

Umfjöllun um íþróttafólkið sem kemur til greina í kjörinu á íþróttamanni Akraness 2020.

Þú getur kosið með því að smella á hlekkinn hér fyrir neðan.

Opnað hefur verið fyrir kosningu HÉR í þjónustugátt Akraneskaupstaðar og er kosningin opin frá 21. til og með 29 desember.

Valdísi Þóru þarf ekki að kynna fyrir Skagamönnum. Þrefaldur Íslandsmeistari í golfi, margfaldur klúbbmeistari Golfklúbbsins Leynis og einn fremsti kylfingur meðal kvenna til margra ára og atvinnumaður.

Valdís Þóra hefur allt frá unglingsaldri verið með skýr markmið sem hún hefur unnið markvisst að hvort sem er með æfingar í huga, Íslandsmeistaratitla, þátttöku í landsliðsverkefnum og nú sem atvinnumaður í golfi.

Valdís Þóra er góð fyrirmynd fyrir alla kylfinga og íþróttafólk og hefur ávallt verið til fyrirmyndar innan sem utan vallar.

Helstu afrek Valdísar á Íslandi á árinu:

Vann meistaramót GL í kvennaflokki í sumar með miklum yfirburðum.
Tók þátt í fyrstu þremur GSÍ mótum sumarsins, með ágætum árangri, t.a.m. 2. sæti á stigamóti á Garðavelli, en varð svo að draga sig í hlé vegna meiðsla.

Helstu afrek Valdísar erlendis á árinu:

Valdís Þóra spilaði erlendis fyrstu mánuðina á keppnistímabilinu 2020.
Hún tók þátt á LET mótaröðinni sem er sterkasta mótaröð kvenna í Evrópu. Árangurinn var heilt yfir ágætur og lenti hún til að mynda í 7. sæti á opna Suður-Afríkumótinu á LET túrnum. Valdís stefndi á þátttöku á Ólympíuleikunum 2020 en þeim var frestað til 2021. Mun hún gera allt sitt til að ná sæti á þeim leikum.

Hvernig stendur Valdís Þóra sig á landsvísu?

Valdís Þóra keppir sem atvinnumaður í golfíþróttinni og hefur um langt skeið verið einn besti kvenkylfingurinn sem Ísland á. Hún er margfaldur Íslandsmeistari í flokki unglinga og fullorðinna og er klúbbnum sínum til sóma. Þá stefnir hún á Ólympíuleikana sumarið 2021.