Heitar umræður hjá eldri borgurum vegna nýrrar gjaldtöku í sund og þreksal

Um áramótin varð sú breyting á gjaldskrá íþróttamannvirkja á Akranesi að eldri borgarar og öryrkjar greiða 50% gjald af stökum miðum og kortum. Á það bæði við um gjald í sund og þreksali.

Stakur miði fyrir fullorðna einstaklinga í sund kostar nú 700 kr. og er gjaldið því 350 kr. fyrir eldri borgara og öryrkja. Ársgjald í sund kostar með 50% afslætti 13.300 kr. fyrir eldri borgara og öryrkja. Áður en þessi breyting tók gildi var ekkert gjald tekið fyrir sund fyrir þessa tvo hópa.

Á fésbókarsíðu Félags eldri borgara á Akranesi er lífleg umræða vegna ákvörðunar bæjarstjórnar að hækka þessi gjöld úr 0 kr.

Bjarni Gunnarsson vekur athygli á þessari breyting í fyrirspurn til hópsins og spyr hvaða skoðun félagar FEBAN hafi á nýársgjöf bæjarstjórnar. 
„Hækkun í sund úr núll kr. og upp í 350. Frekar bratt,verð ég að segja. Til samanbjrðar kostar sama og í fyrra í sund í Mosfellsbæ, það er að segja núll krónur,“ segir Bjarni m.a. í færslu sinni 

Steingrímur Bragason svarar og segir að hann hafi látið þetta yfir sig ganga.

„Kópavogur var áður búinn að gera þetta og aldrei að vita nema Mosó komi svo í kjölfarið. Það er langt í bæjarstjórnarkosningar og því engin ástæða til að lýsa áhuga á að bæta kjör aldraðra. Þökkum fyrir meðan við þurfum ekki að borga fullt gjald,“ segir Steingrímur og Bjarni bendir á að árskort fyrir eldri borgara í sund á Akureyri kosti á bilinu 5000-6000 kr. 

Hörður Helgason, varaformaður Íþróttabandalags Akraness segir að þessi ákvörðun sé misráðin. Margir taka undir þessa gagnrýni og benda á að Akraneskaupstaður gefi sig út fyrir að vera Heilsueflandi samfélag. Og það skjóti því skökku við að hefja gjaldtöku fyrir þessa hópa.

Bjarni hefur greinilega farið í rannsóknarvinnu á þessum málaflokki og bendir á að í Borgarnesi sé gjaldið 6400 kr. á ári fyrir sund og þreksal – og að stök heimsókn í sund kosti 330 kr. fyrir eldri borgara. Bjarni segir einnig frá því að í Stykkishólmi kosti árskort fyrir eldri borgara 6000 kr. og telur upp fleiri sveitarfélög og bæi þar sem ekkert gjald er tekið fyrir sundferðir eldri borgara – þar má nefna Vestmannaeyjar, Grindavík, Höfuðborgarsvæðið, Egilsstaði, Fjallabyggð, Hólmavík og Skagaströnd.

Fleiri aðilar tóku þátt í umræðuþræðinum á fésbókarsíðu FEBAN og margir óska eftir því að félagið taki þetta mál upp við bæjaryfirvöld sem allra fyrst.