Góð líkamleg, andleg og félagsleg heilsa er eitt af markmiðunum í FVA

Steinunn Inga Óttarsdóttir, skólameistari FVA skrifar:

FVA hefur verið þátttakandi í verkefninu Heilsueflandi framhaldsskóli frá 2011 og vinnur skv. gagnreyndum aðferðum landlæknis. Í skólanum er starfandi teymi sem vinnur að markmiðum heilsu- og forvarnarstefnu sem lesa má á vef skólans.

Stefnunni er ætlað að hafa jákvæð áhrif á daglegar venjur og starf í skólanum þar sem nemendur og starfsfólk er hvatt til virkrar þátttöku og aukinnar meðvitundar um bætta heilsu. Óskastaðan er að skólinn sé vímuefnalaus og félagslíf einkennist af heilbrigðum lífsháttum.

Heilsueflingarteymi FVA er skipað fulltrúum kennara, starfsfólks og nemenda. Okkur vantar foreldra í teymið, áhugasamir snúi sér til skólameistara!

Teymið vinnur m.a. að góðri líkamlegri, andlegri og félagslegri heilsu og líðan nemenda og starfsfólks, að styðja við gott félagslíf, tengja saman heilsu og menntun, flétta heilsueflingu saman við daglegt skólalíf til að efla góðan skólabrag en allt þetta stuðlar að forvörnum gegn fíkn og öðrum áhættuþáttum.

Í skólanum er forvarnafulltrúi með viðtalstíma eftir samkomulagi. Forvarnafulltrúinn er til taks ef nemandi hefur áhyggjur af eigin vímuefnaneyslu eða neyslu vina og vandamanna og er kennurum og öðru starfsfólki skólans til ráðgjafar, t.d. ef upp kemur grunur um vímuefnaneyslu í skólanum.

Forvarnarstarf í FVA var þó með minna móti á árinu 2020 þar sem skólahald fór að stórum hluta fram á netinu vegna samkomubanns og smitvarna sem fyrirskipaðar voru af stjórnvöldum. Foreldrafundur nýnema sem jafnan er haldinn á haustönn féll niður en þráðurinn verður tekinn upp fljótlega. Á þeim fundi er m.a. fjallað um vímuvarnir og skólaböll.

Árshátíð Nemendafélagsins er stærsti viðburður félagslífsins á hverju ári og hvatt til þess samkoman sé vímulaus, m.a. með edrúpotti. Foreldrar og forráðamenn nemenda geta lagt hönd á plóg með því að leyfa ekki eftirlitslaust partý sem tengist árshátíðinni og öðrum skólaböllum eða viðburðum.

Forvarnir fléttast inn í námsefni í mörgum áföngum. Í kennslustundum í lífsleikni er sérstaklega fjallað um forvarnir og farið yfir árlegar niðurstöður rannsóknar um fíkniefnaneyslu ungs fólks á Íslandi. Þá er uppi hugmynd um að bjóða upp á námskeið til að hjálpa nemendum við að losna við nikótínfíkn, púða og veip.

Steinunn Inga Óttarsdóttir. Mynd/FVA