Pistill: Stytting vinnuvikunnar – gæði í lífi eða streita í starfi ?

Ingunn Ríkharðsdóttir, skólastjóri í Garðaseli, skrifar:

Í síðustu kjarasamningin var samið um styttingu vinnuvikunnar og tekur hún gildi að fullu 1. janúar 2021 . Markmið þessarar vegferðar eru háleit og falleg. Hún skal leiða til meiri ánægju í starfi, auka afköst og skila betri þjónustu. Þá er ein röksemdin að með styttri vinnudegi ætti heilsa og vellíðan starfsfólks að batna, öryggi verða meira og líka þeirra sem eru notendur þjónustunnar.

Allt hljómar þetta eftirsóknarvert og lengi hefur verið rætt að á Íslandi séu vinnudagar og vinnuálag of mikið án þess að  skila auknum verðmætum.  

Færra fólk – aukin gæði þjónustu

Í kjarasamningum er tekið sérstaklega fram að vinnutímastyttingin eigi ekki að leiða til kostnaðarauka fyrir rekstraraðila, sem þýðir að ekki megi ráða inn fyrir þann starfsmann sem hverfur úr starfi í styttingu vinnuvikunnar. Ekki má skerða þjónustuna sem þýðir að vinna þarf sömu verk en með minni mannafla.

Þarna byrjar þetta fallega og eftirsóknarverða verkefni að hökta og breytast í andhverfu sína, því störf eru mjög ólík í eðli sínu. Í mörgum störfum skiptir ekki máli hvaðan þú vinnur starfið þitt og þú getur stytt vinnuvikuna með því að leggja verkefnin þín hliðar og taka þau aftur upp á morgun. Önnur störf eru þannig að verkefnin leggur þú ekki frá þér og geymir og falla störf þeirra sem vinna með fólk þar undir.

Því miður hefur þetta fallega og eftirsóknarverða verkefni farið í þá vegferð að verða nánast óyfirstíganlegt í framkvæmd, margar hindranir og ótti við afleiðingar og ekki síst hvaða lausnir verða til staðar þegar í óefni er komið.

Stytting vinnuviku í starfi með börnum

Stofnanir og vinnustaðir hafa þurft að taka samtal, greina starfsemina og verkefnin og finna bestu leiðina til að koma styttingunni fyrir – án þess að skerða þjónustustigið og auka gæði þjónustunnar. Í mínu umhverfi eru leikskólar á landsvísu skildir eftir með þetta flókna verkefni og eiga að finna út úr því um leið og þeir eiga að uppfylla öll þessi markmið sem hnýtt eru við styttingu vinnuvikunnar. Það er farið í greiningarvinnu og niðurstaða er í mörgum tilfellum að ekki sé hægt að uppfylla þetta ákvæði kjarasamnings án viðbóta í starfsmannahaldi og ljóst af umræðum almennt í skólasamfélaginu að þetta ógnar leikskólunum og börnunum, sem allt starf snýst um.

Í leikskólum er almennt mikið álag, mörg börn, lítið rými og fáar aukalausnir sem hægt er að grípa til þegar starfsfólk vantar – þá erum við að tala um venjulega daga án styttingar. Nú bætist styttingin við og án afleysinga fyrir þá sem hverfa frá vinnustaðnum. Þá gerist ekkert annað en færri starfsmenn eru til staðar til að sinna börnunum sem ekki geta beðið þangað til á morgun. Fáliðunaráætlanir leikskóla mun trúlegast þurfa að virkja oftar en þær gera ráð fyrir að ákveðinn fjöldi barna þurfi að vera heima ef veruleg undirmönnun er í leikskólunum og mun stytting vinnuviku bætast við aðrar daglegar og lengri fjarvistir starfsmanna.

Við vinnum með lifandi verur, börn, og þau er ekki hægt að leggja til hliðar, sinna þeim á morgun eða hinn. Kennarar og starfsfólk leikskólanna leggja sig fram alla daga um einstaklingsmiðaða nálgun ólíkra barna og að mæta þörfum þeirra þegar þau þurfa. Þannig byggist upp öryggi og vellíðan barna sem dvelur 80 -85 % af vökutíma sínum á stórum og erilsömum vinnustað. 

Stytting vinnuviku barna 

Hefur eitthvað verið rætt um að tryggja börnum styttri vinnuviku / viðveru ? Nei, því ekki má skerða þjónustustigið sem leikskólarnir veita foreldrum og atvinnulífinu.  

Skerðir það gæði náms og þjónustu við börn ? Já, trúlegast. 

Mikilvægt er að velta upp hvaða lausnir eru til staðar til að tryggja ungum börnum áfram uppbyggilegt náms- og leikumhverfi þar sem öryggi þeirra og velferð er í fyrirrúmi. Þar sem þau geta treyst því að fá aðstoð og hlýju þegar þau þurfa. Að starfsemin taki mið af þeirra þörfum fremur en hinna fullorðnu. 

Það að fækka starfsfólki með börnum og halda á lofti háleitum markmiðum um gæði styttingar vinnuvikunnar fyrir fullorðna og sömu gæðum þjónustu er í besta falli ótrúverðug nálgun og hljómar ekki ábyrg. 

Framtíðin – draumsýn

Ég fagna styttingu vinnuvikunnar en bíð eftir þeirri samfélagsbreytingu sem ég tel að að þurfi að fylgja í kjölfarið, hún mun koma síðar.  Við eigum eftir að læra að fóta okkur í nýjum aðstæðum. En börnin geta ekki beðið eftir þessari þróun og því þarf að gera ráð fyrir þeim í öllum þeim lausnum sem settar eru fram í dag – hefur þetta áhrif á þau og þeirra tækifæri ? Ábyrgðin er okkar.

Mín sýn er sú að foreldrar ungra barna sýni mikla ábyrgð þegar kemur að velferð og vellíðan barna þeirra. Þeir eru hluti af hagsmunaaðilum leikskóla sem foreldrar og ábyrgðarmenn barna. Samtal við þennan mikilvæga hóp ætti að vera hluti af forsendum lausna til að uppfylla styttingu vinnuvikunnar.  Ég trúi því að þessi hópur eigi og vilji vera með í samtalinu og fái raunsannar upplýsingar um hvaða þýðingu þessar breytingar hafa á starfsemi leikskólanna. Sleppum ekki því tækifæri.

Ég fagna styttingu vinnuvikunnar en bíð eftir þeirri samfélagsbreytingu sem ég tel að að þurfi að fylgja í kjölfarið, hún mun koma síðar.

Ingunn Ríkharðsdóttir – Skólastjóri í Garðaseli