Harpa Hallsdóttir var í lok s.l. árs ráðin sem mannauðsstjóri Akraneskaupstaðar. Frá árinu 2012 hefur slíkur starfsmaður ekki verið í starfi hjá Akraneskaupstað.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Akraneskaupstað.
Ráðningin er hluti af þeim viðamiklu stjórnkerfisbreytingum sem tóku gildi þann 1. janúar hjá Akraneskaupstað.
Málaflokkurinn hafði frá þeim tíma verið hluti af starfi sviðsstjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs. Ráðningu mannauðsstjóra lauk rétt fyrir áramót og hóf Harpa Hallsdóttir störf 7. janúar sl.
Harpa lauk BA gráðu í spænsku með uppeldis- og menntunarfræði sem aukagrein. Hún lauk meistaragráðu í mannauðsstjórnun frá Háskóla árið 2005 og er að leggja lokahönd á viðbótardiplómu í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands.
Harpa hefur starfað hjá Kópavogsbæ frá 2011 sem mannauðsfulltrúi og mannauðsráðgjafi á stjórnsýslu- og umhverfissviði. Áður vann hún sem deildarstjóri starfsmannahalds hjá Tollstjóra og sérfræðingur hjá Skattrannsóknarstjóra ríkisins.
Með skrifstofu bæjarstjóra er ætlunin að nútímavæða þjónustuferla og efla þjónustuhugsun meðal starfsfólks og innleiða þjónustumarkmið ásamt því að leysa mál með þjálfun starfsmanna í fyrstu snertingu og gegnir einingin frumkvæðishlutverki í stafrænni þróun sveitarfélagsins með það markmið að auka framleiðni og létta álagi á starfsfólk.
Ætlunin er einnig ná fram betri nýtingu á mannauði svo öflugri samrekstur fáist á byggðasafni, vitasvæði og Guðlaugu. Þá er stefnt að ráðningu skjalastjóra á næstu mánuðum sem einnig mun gegna starfi persónuverndarfulltrúa. – segir m.a. í tilkynningu frá Akraneskaupstað.