Heiðrún Jónsdóttir þjónustufulltrúi á bæjarskrifstofu Akraness hefur á undanförnum árum ort skemmtilegar vísur í tilefni á kjörinu á Skagamanni ársins.
Eins og fram hefur komið var heilbrigðisstarfsfólk á Akranesi útnefnt sem Skagamenn ársins 2020. Sigurður Már Sigmarsson og Hulda Gestsdóttir tóku við viðurkenningunni fyrir hönd hópsins – og var það málverkið „Undir verndarvæng“ eftir Bjarna Þór Bjarnason listamann.
Hér er vísan frá Heiðrúnu sem Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri flutti þegar kjörinu var lýst á Þorrablóti Skagamanna.
Skagamenn ársins 2020
Liðið ár var lítið gaman,
leika ekkert máttum saman.
Ekki hitta ömmu og afa,
aldrei partý geggjuð hafa.
Ekki faðmast, knúsa, kyssa
og kjarkinn vorum bara að missa.
Mörgu varð nú samt að sinna
og sumir alltaf þurftu að vinna.
Kúrt ei gátu á kodda að dreyma
og Covid beðið af sér heima.
Þau á vaktir meðan mættu
í minni aðrir voru hættu.
Covid setti á kerfin snúning,
kjarnafólk í grímubúning
önnuðust og vörðu veika
vörnum hvergi mátti skeika.
Veirufjanda dugleg drápu,
daglega með spritti og sápu.
Heilbrigðis- á starfsfólk stjörnum
stráum nú og færum kjörnum
fulltrúum úr flokki vænum
af fagmennsku sem vinna í bænum
heiður þann sem hetjum sönnum
hæfir, ársins Skagamönnum!