Björn Bergmann fer á gamlar slóðir í Noregi

Skagamaðurinn Björn Bergmann Sigurðarson hefur samið við norska knattspyrnuliðið Molde. Björn, sem verður þrítugur þann 26. febrúar á þessu ári, þekkir vel til Molden hann lék með liðinu 2014, 2016 og 2017.

Samningur Björns er til tveggja ára en gerði skammtímasamning við norska liðið Lillestrøm s.l. haust og tók þátt í því að tryggja félaginu sæti í efstu deild að nýju. Samkvæmt heimildum Verdens Gang greiðir Molde rúmlega 50 milljónir kr. fyrir Björn Bergmann.

Ole Erik Stavrum – framkvæmdastjóri Molde segir að Björn sé einn af bestu framherjum norsku úrvalsdeildarinnar.

„Við erum mjög glaðir og ánægðir með að hafa fengið Björn á ný til félagsins. Hann er þekkt stærð hér í Molde og náði góðum árangri sem leikmaður Molde,“ segir Stavrum í viðtali á heimasíðu Molde.

Félagið endaði í öðru sæti í norsku úrvalsdeildinni 2020. Björn Bergmann hefur leikið 53 leiki fyrir Molde og skorað samtals 31 mark. Hann hefur leikið víða sem atvinnumaður.

Framherjinn hóf ferilinn á Akranesi þar sem hann lék í tvö tímabil með ÍA 2007 og 2008. Árið 2009 samdi hann við Lillestrøm í Noregi, hann fór til Wolves á Englandi árið 2012, hann var á láni hjá Molde 2014 frá Úlfunum og 2015 hjá FCK í Kaupmannahöfn. Árið 2016 fór hann á ný til Molde en árið 2018 samdi hann við Rostov í Rússlandi. Hann var lánaður til Apoel á Kýpur árið 2020 en hann samdi við Lillestrøm í lok ársins 2020 út leiktíðina.

Björn Bergmann hefur leikið 17 A-landsleiki fyrir Ísland og skorað eitt mark.

„Það er gott að vera komin á ný til Molde- Þetta er fallegur bær og gott fólk sem býr hér. Stuðningsmennirnir í Tornekratt eru einnig sérstaklega skemmtilegir,“ segir Björn Bergmann m.a. í viðtali á heimasíðu Molde.

http://localhost:8888/skagafrettir/2017/03/25/otrulegt-afrek-fjogurra-sona-bjarneyjar-hafa-allir-skorad-fyrir-island/