Erindi FEBAN vegna gjaldtöku skilaði engum árangri

Félag eldri borgara á Akranesi sendi nýverið erindi til bæjarráðs þar sem að gjaldtöku í íþróttamannvirki Akraneskaupstaðar er mótmælt. Erindið var tekið fyrir á síðasta fundi bæjarráðs Akraness.

Akraneskaupstaður þakkaði félaginu fyrir erindið en getur ekki orðið við því að taka til baka þá ákvörðun um gjaldtöku hjá eldri borgurum og öryrkjum á sundstöðum bæjarins.


Í svari frá bæjarstjórn kemur fram að gjaldskrá Akraneskaupstaðar hafi verið 39% undir meðalverði á landsvísu. Einnig er bent á að miklar framkvæmdir hafi átt sér stað við búningsherbergi og pottasvæði á Jaðarsbökkum. Áætlaðar tekjur af aðgangseyri við íþróttamannvirkið á Jaðarsbökkum á árinu 2021 eru 12,3 milljónir kr eða sem nemur tæplega 34 þúsund kr. á dag. Rekstrarkostnaður er áætlaður rétt tæplega 250 milljónir kr – eða sem nemur tæplega 650 þúsund kr. á hverjum degi.

Svar bæjarráðs í heild sinni er hér fyrir neðan:

Við samanburðargreiningu í undirbúningi fjárhagsáætlunar kom í ljós að Akraneskaupstaðar er 39% undir meðalverði þeirra sveitarfélaga sem litið var til og var mjög áberandi í fjölmiðlum sl. sumar hvað sundlaugarferðin á Akranesi var hagstæð og ódýr.

Síðstliðin ár hefur Akraneskaupstaður lagt mikið fjármagn í endurnýjun pottasvæðis og búningsklefa við sundlaugina á Jaðarsbökkum. Rekstarkostnaður sundlaugarinnar á Jaðarsbökkum hefur hækkað um 36% frá árinu 2017 og var því ákveðið að hækka almennt miðaverð í sund um 10% og verður kr. 700 en bjóða upp á fjölbreyttari afsláttarkjör af mismunandi kortum. Ásamt því fá eldri borgara og öryrkjar 50% afslátt af stökum miðum og kortum og atvinnulausir fá sama afslátt af stökum miðum. Áréttað skal að kostnaður af stakri sundferð er áfram stillt í hóf í samanburði við önnur sveitarfélög en eðli máls samkvæmt nýta heimamenn/fastakúnnar sér fremur afsláttarkjör með kaupum á kortum (þriggja, sex eða tólf mánaða).

Rekstrarkostnaður íþróttamannvirkjanna á Jaðarsbökkum er áætlaður um 249 m.kr. fyrir árið 2021 og tekjur af aðgangseyri um 12,3 m.kr.