Þórður og Lúðvík fá fleiri verkefni sem landsliðsþjálfarar hjá KSÍ

Skagamennirnir Þórður Þórðarson og Lúðvík Gunnarsson hafa fengið ný verkefni sem landsliðsþjálfarar hjá Knattspyrnusambandi Íslands. Töluverðar breytingar hafa orðið á þjálfaramálum hjá KSÍ á undanförnum vikum. Ráðnir hafa verið nýir landsliðsþjálfarar fyrir A karla og kvenna, U21 karla, U19 karla og U15 kvenna.

Þórður Þórðarson verður aðstoðarþjálfari U-21 árs landsliðs karla ásamt Jörundi Áka Sveinssyni.

Davíð Snorri Jónasson er nýr aðalþjálfari liðsins sem mun taka þátt í lokakeppni Evrópumótsins í mars á þessu ári. Þórður og Jörundur verða í þessu hlutverki fram yfir lokakeppni EM U-21 árs landsliðs karla. Þórður mun áfram vera aðalþjálfari U19/U18 ára landsliðs kvenna og til aðstoðar í U-17/U-16 ára landsliðs kvenna.

Lúðvík Gunnarsson verður aðstoðarþjálfari U19-/U18 ára landsliðs karla ásamt því að vera aðalþjálfari U-15 ára landsliðs karla. Lúðvík er með marga bolta á lofti í starfi sínu hjá KSÍ um þessar mundir en hann stýrir einnig Hæfileikamótun N1 og KSÍ.

Nánar á vef KSÍ.