Aðalfundur Knattspyrnufélags ÍA fer fram 18. febrúar 2021

Aðalfundur Knattspyrnufélags ÍA fer fram fimmtudaginn 18. febrúar nk. kl. 20  í fundarsalnum í Íþróttamiðstöðinni að Jaðarsbökkum. Stjórn félagsins hefur ákveðið að halda fundinn miðað við þær samkomutakmarkanir sem í gildi eru, en þær heimila 20 manna fund en það er einmitt sá lágmarksfjöldi sem krafist er til þess að fundurinn teljist löglegur. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Óskað er eftir skilningi félagsmanna en mikilvægt er að aðalfundur fari fram til að skipa stjórn og taka ársreikning til afgreiðslu þannig að starfið geti haldið áfram sinn vanabundna gang. Jafnframt hefur stjórn félagsins ákveðið að birta á heimasíðu félagsins ársskýrslu og ársreikning fyrir starfsárið 2020, fjárhagsáætlun 2021 og þær lagabreytingar sem fyrir fundinum liggja. Félagsmenn geta því kynnt sér þessi gögn og ef þeir þess óska komið spurningum um þau eða athugasemdum til framkvæmdastjóra ([email protected]) þannig að um slíkt megi fjalla á fundinum. Fundurinn verður sendur út á netinu á ÍATV. Hér að neðan má finna fyrrnefnd gögn.

Knattspyrnufélag ÍA glímdi við erfiðleika í rekstri félagsins á starfsárinu. Félagið þurfti að hagræða í rekstri sínum vegna Kórónufaraldurins og umtalsverðs rekstrartaps frá fyrra starfsári. Með samstilltu átaki sem fól m.a. í sér launalækkun á öllum sviðum og sölu leikmanna félagsins tókst að reka félagið með hagnaði. Rekstrartekjur voru rúmar 210 milljónir kr. en rekstrargjöld rúmar 207 milljónir kr. sem gerði rekstrarafgang að teknu tilliti til fjármagnsliða upp á 2,7 milljónir króna.

Ársskýrsla 2020

Ársreikningur 2020 til afgreiðslu á aðalfundi

Fjárhagsáætlun 2021 til afgreiðslu á aðalfundi

Lagabreytingar með skýringum til afgreiðslu á aðalfundi