Biðstaða á Jaðarsbökkum vegna opnunar á þreksalnum hjá ÍA

Íþróttabandalag Akraness, sem er rekstraraðili þreksalarins á Jaðarsbökkum, sendi á dögunum erindi til bæjarráðs þar sem að óskað var eftir aðstoð vegna opnunar á þreksalnum.

Bæjarráð fjallaði um erindið á síðasta fundi sínum og var niðurstaðan að bæjarráð getur ekki orðið við erindinu.

Í erindi ÍA kemur fram að með breyttum sóttvarnarreglum sem tóku gildi þann 8. febrúar hafi opnast á þann möguleika að hafa þreksal á Jaðarsbökkum opinn fyrir almenning. Vegna tekjuleysis Íþróttabandalagsins getur bandalagið ekki staðið straum af þeim kostnaði sem hlýst við að opna salinn. Til þess að fylgja sóttvörnum og eftirliti í sal þarf að fá manneskju til þess í sérstakt verkefni og greiða fyrir það. Óskar framkvæmdastjórn eftir því að Akraneskaupstaður komi á móts við Íþróttabandalagið og greiði fyrir þetta stöðugildi.

Eins og áður hefur komið fram var þessu erindi frá ÍA hafnað og óvíst er hvenær þreksalurinn á Jaðarsbökkum opnar á ný.