Björgunarsveitir fá nýjar færanlegar rafstöðvar til að efla fjarskiptaöryggi

Björgunarsveitir Landsbjargar fá allt í allt rúmlega 30 nýjar færanlegar rafstöðvar á þessu ári. Tilgangurinn er að efla rekstraröryggi í fjarskiptum þegar óveður geysa eða hamfarir verða og tryggja eins og kostur er að hægt verði að hringja eftir aðstoð í neyð og kalla út viðbragðsaðila.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðs Íslands. Ein slík rafstöð er til staðar á Akranesi.

Með því að fjölga færanlegum rafstöðvum og staðsetja hjá björgunarsveitum verður hægara að koma rafmagni aftur á þar sem þörf krefur og bæta þannig lífsgæði fólks. 

Nýverið voru 13 rafstöðvar afhentar í húsakynnum Neyðarlínunnar á Hólmsheiði.

Afhending færanlegra rafstöðva markar upphaf á öðrum áfanga í átaki stjórnvalda um úrbætur á fjarskiptainnviðum eftir mikil óveður í desember 2019. Í fyrri áfanga var varaafl bætt á 68 fjarskiptastöðvum, einkum á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi. Í þeim síðari verður huga að fjarskiptastöðvum á Suðurlandi, Vesturlandi og suðvesturhorninu. Færanlegar rafstöðvar bætast við net af föstum rafstöðvum um land allt. Þegar átakinu lýkur mun samanlagt afl allra varaaflstöðvanna nema um 2 MW. Meðalafl fastra rafstöðva er um 20 KW en í færanlegum rafstöðvum um 15 kW.

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, kynnti í fyrravor að verkefnið fengi 275,5  milljóna kr. fjárveitingu árið 2020 á vegum fjarskiptasjóðs. Fjárveitingin var veitt á grundvelli fjárfestingaátaks stjórnvalda til að sporna jafnframt gegn samdrætti í hagkerfinu í kjölfar heimsfaraldursins.

Tveir áfangar

Neyðarlínan hefur átt í nánu samstarfi við Mílu, fjarskiptafélögin Nova, Símann og Sýn (Vodafone) og Ríkisútvarpið um aðgerðir til að tryggja samfelld fjarskipti í langvarandi rafmagnsleysi. Neyðarlínan er í forsvari fyrir verkefninu.

Varaaflsverkefninu var skipt í tvo áfanga. Í fyrra áfanganum var unnið að verkefnum á Vesturlandi, Vestfjörðum, Norðurlandi og Austurlandi og gerðar voru margvíslegar úrbætur á 68 fjarskiptastöðum. Settar hafa verið upp 32 nýjar fastar vararafstöðvar, rafgeymum bætt við á tíu lykilskiptistöðvum fjarskipta, tenglar fyrir færanlegar rafstöðvar settir upp á 26 stöðum, ljósleiðaratengingum fjölgað og ýmsar endurbætur gerðar á öðrum stöðum. 

Vinna við annan áfanga er að hefjast og þá er stefnt á sambærilegar úrbætur á Suðurlandi, Vesturlandi og suðvesturhorninu. Þó hefur þegar tekist gera ýmsar úrbætur á Vestur- og Suðurlandi í tengslum við fyrri áfangann en þeirri vinnu verður haldið áfram.

Færanlegum rafstöðvum verður komið fyrir hjá björgunarsveitum sem eru best til þess fallnar að nýta þær þegar neyðarástand skapast. 

Staðir sem fá færanlega rafstöð í febrúar 2021 (umsjón)

 • Borgarnes (Björgunarsveitin Brák)
 • Ólafsvík (Björgunarsveitin Lífsbjörg)
 • Reykhólar (Björgunarsveitin Heimamenn)
 • Blönduós (Björgunarfélagið Blanda)
 • Dalvík (Björgunarsveitin Dalvík)
 • Akureyri (Neyðarlínan – starfsstöð á Akureyri)
 • Laugar (Slökkviliðið á Laugum)
 • Höfn (Björgunarfélag Hornafjarðar)
 • Skaftafell (Björgunarsveitin Kári)
 • Hvolsvöllur (Björgunarsveitin Dagrenning)
 • Selfoss (Björgunarfélag Árborgar)
 • Reykjanesbær (Björgunarsveitin Suðurnes)
 • Reykjavík (Neyðarlínan – starfsstöð á Hólmsheiði)

Staðir sem þegar hafa fengið færanlega rafstöð (umsjón)

 • Akranes (Míla – starfsstöð á Akranesi)
 • Patreksfjörður (Björgunarsveitin Blakkur)
 • Ísafjörður (Björgunarfélag Ísafjarðar)
 • Hvammstangi (Björgunarsveitin Húnar)
 • Siglufjörður (Björgunarsveitin Strákar)
 • Ólafsfjörður (Björgunarsveitin Tindar)
 • Húsavík (Slökkviliðið Húsavík)
 • Mývatn (Björgunarsveitin Stefán)
 • Seyðisfjörður (Björgunarsveitin Ísólfur)
 • Egilsstaðir (Björgunarsveitin Hérar)
 • Reyðarfjörður (Björgunarsveitin Ársól)
 • Kirkjubæjarklaustur (Björgunarsveitirnar Kyndill og Stjarnan)
 • Vestmannaeyjar (Björgunarfélag Vestmannaeyja)

Staðir í næsta áfanga

 • Sauðárkrókur
 • Þórshöfn
 • Borgarfjörður eystri
 • Djúpivogur
 • Vík