Hjólastólalyfta í nýjum strætisvagni á leið 57

Nýverið kom til landsins fyrsti sérsmíðaði vagninn með hjólastólalyftu sem ekur fyrir Strætó á landsbyggðinni. Vagninn er kominn í notkun á leið 57 (Reykjavík-Akureyri) hjá Hópbílum en á þessari leið er ekið í gegnum Akranes. Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar.

Vegagerðin gerði kröfu um aðgengi fólks í hjólastólum í útboði landssamgangna sumarið 2020. Krafan snerist um að slíkir vagnar væru til taks fyrir leiðir 55 (Keflavík-Reykjavík), 56 (Akureyri-Egilsstaðir) og 57 (Reykjavík-Akureyri) og sameiginlega á leið 51 (Höfn-Reykjavík) og 52 (Reykjavík-Landeyjarhöfn), eða samtals fjórir vagnar.

Hópbílar, sem hlutu útboð fyrir akstur á Reykjanesi, Suðurlandi, Vestur- og Norðurlandi, hafa nú fengið afhentan fyrsta sérsmíðaða vagninn með hjólastólalyftu og hefur hann þegar verið tekinn í notkun á leið 57 frá Reykjavík til Akureyrar.

Fyrirkomulagið er með þeim hætti að farþegar sem þurfa aðgengi fyrir hjólastól hafa samband við þjónustuver Strætó í síma 540-2700, með minnst 24 klst. fyrirvara til að láta vita í hvaða ferð þarf sérútbúinn bíl. Þjónustuverið hefur samband við rekstraraðila til að tryggja að réttur bíll verði til staðar í umtalaðri ferð.

Bíllinn sem nú þegar er í notkun er frá Hollandi af gerðinni VDL og er eins og hinir vagnarnir sem von er á af lengstu mögulegu gerð vagna sem framleiddir eru í Evrópu. Hann er útbúinn hjólastólalyftu sem getur lyft a.m.k. 300 kg en lyftupallurinn er öruggur bæði í þurru og votu veðri.

Í bílnum er beltisbúnaður og búnaður til að tryggja að stóllinn sé kyrr í vagninum. Festingar fyrir hjólastólana eru geymdar í vagnlestinni þegar stæðið er ekki í notkun. Plássið í vagninum sem er ætlað undir hjólastóla er ekki hægt að nýta undir hefðbundin vagnasæti.

Hér má sjá stutt myndband af því hvernig hjólastólalyftan virkar.