Eins og fram hefur komið hér á Skagafréttir komu upp vandamál við framkvæmd samræmdra prófa í grunnskólum landsins í morgun – og þar á meðal á Akranesi. Um var að ræða próf í íslensku hjá 9. bekk.
Um 70 skólar af um 150 á landsvísu lentu í vandræðum með að komast inn í prófgáttina hjá Menntamálastofnun. Síðdegis í dag sendi Menntamálastofnun frá sér tilkynningu þess efnis að samræmdu prófunum yrði frestað.
Próftaka hefst mánudaginn 15. mars og þá hafa grunnskólarnir tveggja vikna glugga til að stilla upp prófunum hjá sér í íslensku, stærðfræði og ensku. Skólarnir fá tækifæri til þess að velja prófdaga fyrir sína nemendur og er markmiðið að reyna að draga úr álaginu á vef Menntamálastofnunar sem heldur utan um framkvæmdina.
Hér fyrir neðan má sjá tilkynningu frá Menntamálastofnun sem send var síðdegis í dag.
Samræmd könnunarpróf færð yfir á varaprófdaga sem verður fjölgað í 10 daga
Próf í stærðfræði og ensku færð yfir á varaprófdaga Nemendur geta þreytt próf í íslensku aftur
Skólar hafa tvær vikur til að leggja fyrir öll þrjú prófin fyrir
Við fyrirlögn samræmds könnunarprófs í íslensku í 9. bekk í morgun komu upp tæknileg vandamál í prófakerfi. Vandinn lýsti sér í því að hluti nemenda átti erfitt með að komast inn í prófin eða duttu út úr kerfinu áður en þeir höfðu lokið próftöku. Samkvæmt fyrstu greiningu hafa um 3.500 nemendur af um 4.200 lokið prófinu en ljóst er að hluti nemenda tók prófið við ófullnægjandi aðstæður.
Menntamálastofnun ber ábyrgð á framkvæmd samræmdra könnunarprófa í grunnskólum og harmar þau vandamál sem komu upp við fyrirlögn þeirra. Eru nemendur og starfsfólk skóla beðið afsökunar á þeim óþægindum sem þetta hefur valdið. Stofnunin er nú að greina stöðuna með þjónustuaðila prófakerfisins og vinna að viðeigandi úrlausn. Þar sem ekki hefur fengist fullnægjandi lausn á þeim vanda sem upp kom í morgun var nauðsynlegt að endurskoða fyrirlögn prófanna.
Að höfðu samráði við mennta- og menningarmálaráðuneyti hefur verið ákveðið að fresta samræmdum könnunarprófum í stærðfræði og ensku í þessari viku. Skólum er gefinn kostur á að leggja öll þrjú samræmdu könnunarprófin fyrir á tveggja vikna tímabili frá og með næsta mánudegi. Þannig hafa skólar val um hvaða próf þeir leggja fyrir og hvenær á tímabilinu 15.-26. mars. Allir nemendur innan hvers skóla verða að taka sama próf á sama degi. Við þessar krefjandi aðstæður hefur ekki verið svigrúm til að eiga samráð og samtal við foreldra og nemendur en stefnt er að því næstu daga.
Með þessu fyrirkomulagi telur Menntamálastofnun að unnt verði að leggja samræmd könnunarpróf fyrir með viðunandi hætti og skapa skólum svigrúm til að ljúka fyrirlögn þeirra án þess að mikil röskun verði á skólastarfi.