Landsbankamót ÍA í badminton fer fram um næstu helgi í íþróttahúsinu við Vesturgötu. Mótið er hluti af Domino’s Tríó unglingamótaröð Badmintonsambands Íslands og gefur stig á styrkleikalista sambandsins.
Alls eru 159 keppendur skráðir til leiks og koma þeir frá 8 félögum, BH, ÍA, Hamar, KR, TBR, TBS, Samherjar og UMFA.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá BSÍ.
Keppt verður í flokkum U13 – U19 í öllum greinum og einnig verður keppt í einliðaleik í U11.
Á laugardaginn fer fram keppni í flokkum U11 og U13 og á sunnudag fer fram keppni í flokkum U15, U17 og U19.
Einn áhorfandi má fylgja hverjum keppanda og gilda eftirfarandi reglur í húsinu vegna sóttvarna:
- grímuskylda fyrir alla í stúku
- áhorfendur ganga inn í íþróttahúsið frá Vesturgötu, inn í stóra anddyrið, þar verður starfsmaður sem skráir niður nafn, kennitölu og símanúmer og úthlutar viðkomandi númeruðu sæti
- áhorfendur mega ekki skipta um sæti á mótinu
- keppendur ganga inn í íþróttahúsið um aðalinngang, á móti sparkvelli
- áhorfendur nota salerni í stóra anddyri, þar sem þeir koma inn
- keppendur nota salerni í búningsklefum
- hvorki verður boðið upp á veitingasölu né kaffi á mótinu
Smellið hér til að sjá niðurröðun og tímasetningar á mótinu.