Skagamenn hafa samið við framherja úr Fylki sem mun leika með liðinu í PepsiMax-deild karla í knattspyrnu í sumar.
Samningurinn er til þriggja ára – en leikmaðurinn er Hákon Ingi Jónsson.
Hann er 25 ára og hefur leikið tæplega 140 leiki með meistaraflokki Fylkis og skorað alls 32 mörk. Hákon hefur leikið með yngri landsliðum Íslands.
Í tilkynningu frá félaginu segir að framherjinn sé mikill liðsstyrkur fyrir félagið og það verði gaman að sjá hann í gula búningnum fyrir komandi tímabil.