Snæbjörn Gíslason á Akranesi er elstur allra karla á Íslandi

Nú eru 46 Íslendingar 100 á eldri og þar af eru 6 karlar. Snæbjörn Gíslason á Akranesi er elstur allra karla á Íslandi en hann er 103 ára, fæddur í Borgarfjarðarsýslu. Þetta kemur fram á fésbókarsíðunni Langlífi – sjá hér.

Hlutfall karla af þeim Íslendingum sem eru 100 ára eða eldri er 13% en hlutfallið er breytilegt á milli ára en hefur oft verið í kringum 20-25%.

Georg Breiðfjörð Ólafssson í Stykkishólmi hefur náð hæstum aldri karla, var 107 ára og 333 daga þegar hann dó í febrúar 2017.

Snærbjörn Gíslason er fæddur á Litla-Lambahaga í Skilmannahreppi í Borgarfjarðarsýslu, 22. febrúar árið 1918. Hann starfaði lengstan sinn starfsaldur í fiskvinnslu hjá Haraldi Böðvarssyni. Systkini hans voru sex. Þórður bróðir hans varð 97 ára, Elísa systir hans varð 96 ára og Kristín systir hans verður 100 ára í júní. Ríkharður Jónsson knattspyrnumaður og þau systkinin voru systkinabörn.

Bræðurnir Þórður t.v. og Snæbjörn Gíslasynir að undirbúa síldarsöltun á eyrinni árið 1965 – en Snæbjörn var á þessum tíma 47 ára. Ljósm. Haraldarhús.