Körfuboltinn í sókn á 35 ára afmælisári – skulda ekki krónu og framtíðin er björt

Aðalfundur Körfuknattleiksfélags ÍA fór fram í gær að Garðavöllum. Félagið á 35 ára afmæli á þessu ári og einnig er 50 ára keppnisafmæli fagnað á þessu ári.

Gísli Gíslason, íþróttahetja og fyrrum bæjarstjóri, var fundarstjóri en hann er einn af frumkvöðlum körfuboltans á Akranesi. Góð mæting var á fundinn þrátt fyrir samkomutakmarkanir. Félagið fékk blómvönd frá ÍA og 50 þúsund kr. styrk sem Guðmunda Ólafsdóttir framkvæmdastjóri ÍA afhenti á fundinum.

Jón Þór Þórðarson, formaður Körfuknattleiksfélags ÍA, fór yfir starf félagsins á síðasta ári og gerði grein fyrir ársreikningum. Um 12 milljóna kr. velta var hjá félaginu á síðasta ári, félagið er skuldlaust, og var reksturinn réttu meginn við núllið. Stjórn félagsins var endurkjörin í heild sinni.

Nokkur umfjöllun var um fjárhagsstuðning Akraneskaupstaðar til ÍA en nýlegar greiningar og samanburður sýnir að Akraneskaupstaður er að leggja mun minna til ÍA en sambærileg sveitarfélög. Þegar horft er á þetta útfrá fjöldaþátttöku og beinum fjárstuðningi þá er munurinn sláandi.. Nú líður að endurnýjun á starfssamningi Akraneskaupstaðar og ÍA og bindur KÍA vonir við að Akraneskaupstaður hækki þar verulega beina styrki til ÍA þannig að þeir séu sambærilegir og hjá þeim íþrótta- og sveitarfélögum sem við berum okkur saman við.

Hannes Jónsson formaður KKÍ ávarpaði fundinn, en KKÍ fagnar einmitt 60 ára afmæli um þessar mundir. Hannes fór yfir stöðu körfuboltans á Íslandi í heild sinni en mikill uppgangur hefur verið síðustu ár. Hann hrósaði sérstaklega þeim uppgangi sem verið hefur Akranesi síðustu ár og vonaði að það færi að skila sér meira á afreksstig þar sem ÍA væri með lið í efri deildum.

Töluverðar umræður voru um aðstöðumál og aðgengi iðkenda að íþróttamannvirkjum.

Eldri afeksiðkendur félagsins eru ítrekað að upplifa það að fá ekki að æfa sig að skjóta á körfu og að frekar skuli íþróttasalurinn standa tómur. KÍA hefur frá því í lok árs 2019 óskað eftir því að eldri hópar iðkenda 15 ára og eldri fái að æfa sig í körfubolta á eigin ábyrgð á skilgreindum tíma í íþróttasal og þá með upplýstu samþykki foreldra. Nú stendur til að gera samræmdar reglur um aðgengi að íþróttamannvirkjum og bindur félagið vonir um að í nýjum samræmdum reglum verði bætt aðengi íþróttafólks að íþróttamannvirkjunum haft að leiðarljósi og meira jafnræðis gætt.

Að lokum þakkaði Jón Þór formaður KÍA fyrir góðan fund, hann þakkaði fyrir góðar gjafir og góð orð í garð félagsins. Hann þakkaði öllum fyrirtækjum og einstaklingum fyrir stuðninginn, nú væri bara að halda áfram veginn, áfram ÍA!