Skapa á aðstöðu til rannsókna, nemendaverkefna og þróunar- og nýsköpunarstarfs fyrir nemendur og starfsfólk Háskóla Íslands á Breiðinni á Akranesi samkvæmt viljayfirlýsingu sem undirrituð var í gær.
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri Akraneskaupstaðar, og Valdís Fjölnisdóttir, framkvæmdastjóri Breiðar Þróunarfélags, undirrituðu samkomulag þess efnis í Hátíðasal Háskóla Íslands . Frá þessu er greint á vef Háskóla Íslands – nánar hér.
Akraneskaupstaður, Breið Þróunarfélag og Háskóli Íslands voru meðal fjölmargra aðila sem gerðu með sér samkomulag síðastliðið sumar um að byggja upp rannsókna- og nýsköpunarsetur og samvinnurými á Breiðinni á Akranesi.
Viljayfirlýsingin nú er framhald á þeirri vinnu sem miðar að því að skapa umhverfi fyrir þróunarverkefni sem nýst geta til að takast á við ýmsar áskoranir samtímans sem snerta m.a. tækni, lýðheilsu og umhverfismál.
Ætlunin er samkvæmt viljayfirlýsingunni að koma upp aðstöðu í húsnæði Breiðar þróunarseturs sem nýst getur nemendum og vísindafólki Háskóla Íslands m.a. til verklegra tilrauna, þróunar og nýsköpunar.