Nýjustu Covid-19 tölurnar – einstaklingum í sóttkví á Vesturlandi fjölgar umtalsvert

Alls voru sex Covid-19 smit greind á Íslandi og var einn einstaklingur utan sóttkvíar. Rúmlega 1200 sýni voru tekin í gær. Á landamærunum greindist ekkert smit í rúmlega 320 sýnum. Þetta kemur fram á covid.is. Alls eru 95 einstaklingar í einangrun á Íslandi með virkt Covid-19 smit og tæplega 1300 manns eru í sóttkví – og bættust um 600 einstaklingar við í sóttkví í gær.

Nemandi í Öldutúnsskóla í Hafnarfirði greindist með smit í gær. Þar með eru staðfest smit í fimm grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu. Flest hafa þau greinst í Laugarnesskóla en einnig hafa smit komið upp í Laugalækjarskóla, Vesturbæjarskóla og Hlíðaskóla.

Samkvæmt tölum á covid.is eru 8 einstaklingar í sóttkví á Vesturlandi – og hafa því þrír bæst við á þann lista í landshlutanum. Lögreglan á Vesturlandi uppfærði tölurnar í gær og þar má sjá hvernig staðan er í bæjarfélögunum á Vesturlandi. Á Akranesi eru tveir einstaklingar í sóttkví vegna Covid-19.