Ágúst hefur í mörg horn að líta sem liðsstjóri í lokakeppni EM hjá U21 árs landsliði karla

„Ég er ber ábyrgð á öllu fatnaði og öðrum búnaði liðsins sem liðsstjóri en ég hef verið í þessu hlutverki hjá U-21 árs liði karla frá árinu 2018,“ segir Skagamaðurinn Ágúst Valsson sem hefur í mörg horn að líta í lokakeppni U-21 árs landsliðs Íslands á EM sem fram fer í Ungverjalandi.

Það eru margar Skagatengingar í hópnum hjá U-21 árs liðinu. Skagamaðurinn Guðlaugur Gunnarsson er yfirfararstjóri liðsins en hann var lengi framkvæmdastjóri Knattspyrnufélags Akraness. Og þar að auki eru Skagamenn í leikmannahópnum og þjálfarateyminu.

„Ég byrjaði í þessu árið 2013 þegar ég tók nokkur verkefni - en á þeim tíma voru Skagamennirni Árni Snær Ólafsson og Björn Bergmann Sigurðarson í liðinu. Ég hef fengið að starfa með fullt af flottu fólki í gegnu tíðina og mörgum flottum þjálfurum.  Eyjólfi Sverrissyni, Arnari Þór Viðarssyni, Eiði Smára Guðjohnsen og nú Davíð Smára Jónassyni. Það er frábært starfsfólk í þessum hóp en lengst hef ég starfað með Róberti Magnússyni sjúkraþjálfara - sem var hjá ÍA árið 2007 þar sem ég var liðsstjóri á sama tíma.  

Ísak Bergmann Jóhannesson, Stefán Teitur Þórðarson, Hörður Ingi Gunnarsson og Bjarki Steinn Bjarkason, allt fyrrum leikmenn ÍA, hafa verið í leikmannahóp Íslands í fyrstu tveimur leikjunum – og Þórður Þórðarson fyrrum þjálfari mfl. ÍA er einn af aðstoðarþjálfurum liðsins. Ísak Bergmann hefur nú verið kallaður inn í A-landsliðshóp Íslands og tekur því ekki þátt í fleiri leikjum með U-21 árs landsliðinu.

Ágúst er þaulreyndur í liðsstjórahlutverkinu en hann var lengi liðsstjóri hjá Knattspyrnufélagi ÍA og þjálfaði einnig yngri flokka félagsins um margra ára skeið.

Frá vinstri: Þórður Þórðarson, Stefán Teitur Þórðarson, Ísak Bergmann Jóhanesson og Ágúst Valsson. Mynd/Aðsend
Frá vinstri: Þórður Þórðarson, Stefán Teitur Þórðarson, Hörður Ingi Gunnarsson,
Ísak Bergmann Jóhannesson, Bjarki Steinn Bjarkason og Ágúst Valsson.
„Eins og áður segir þá er mitt hlutverk að halda utan um allt dótið sem við komum með hingað til Ungverjalands. Alls eru þetta 64 stórar töskur - enda er um lokamót að ræða. Það er reyndar aðeins helmingurinn af því sem A-landslið karla er með á sínu ferðalagi. Á þessum tíma hef ég fengið tækifæri til að ferðast til landa sem eru kannski ekki alveg í alfaraleið. Má þar nefna Kína og Katar. Það er aðeins öðruvísi stemning í þessum ferðum núna út af Covid-19 þar sem að við erum nánast alltaf inni á hótelinu - og kannski í smá göngutúra af og til En öll þessi verkefni eru skemmtileg á sinn hátt og það sem breytist aldrei er að fá tækifæri að vinna með öllu þessu skemmtilega fólki og leikmönnum að sjálfsögðu,“ sagði Ágúst Valsson.